Flestir hafa einhvern tíma á ævinni sinni fengið vöðvabólgu og margir eru að díla við hana mjög reglulega, þar með talin ég. Þess vegna langaði mig til að skrifa smá pistil um vöðvabólgu; hvað veldur og hvað getur maður gert til að draga úr henni?
Vöðvabólga lýsir sér sem staðbundnir verkir í vöðvunum og algengast er að vöðvabólga myndist í öxlum og hálsi, þó hún geti myndast í nánast hvaða vöðvum sem er. Stífni og þreyta í vöðvunum eru einkennandi fyrir vöðvabólgu. Vöðvabólga er ekki alltaf eiginleg bólga, oft er þetta spenna sem myndast vegna þess að ekki nægt blóðflæði er til vöðvans og þar af leiðandi þrengir að æðum hans. Vöðvinn þrútnar og stífnar upp, missir teygjanleika, styrk og úthald og stundum myndast svokallaðir “trigger punktar” í honum. Þegar þetta á við, þá eru bólgueyðandi lyf ekki að fara að hjálpa mikið, en í sumum tilfellum getur það auðvitað virkað.
Hvíld og þjálfun er jafn mikilvægt fyrir vöðvabólgu. Til eru ýmis ráð sem hafa reynst ágætlega við vöðvabólgu. Gott getur til dæmis verið að nota heita og kalda bakstra til skiptis, hvorn í um 10-15 mínútur í senn, og þá er helst mælt með því að enda á köldum bakstri. Þegar vöðvinn er farinn að jafna sig og bólgurnar farnar að minnka, er gott að nota hita á vöðvann. Allt sem hefur jákvæð áhrif og dregur úr streitu er af hinu góða, til dæmis öll almenn hreyfing; svo sem sund, gönguferðir og skokk. Þá getur einnig verið gott að fara í heitt bað, fara í nudd og gera léttar teygjuæfingar eins oft og mögulegt er. Þar sem vöðvabólga er oft spenna sem myndast vegna streitu, þá einmitt er einnig mjög mikilvægt að kunna að slaka á og sofa vel. Gott er líka að skoða vinnuumhverfið sitt og meta hvort ástæða vöðvabólgunnar geti verið vegna vinnustellinga eða einhvers annars í vinnunni, eins og til dæmis mikillar streitu.
Megin atriðið er að viðvarandi vöðvabólga eða vöðvaspenna er ekki viðunandi ástand, og kemur til vegna þess að við erum að beita okkur rangt, hreyfum okkur ekki nóg eða erum undir of miklu álagi. Við eigum að geta komið í veg fyrir það að fá vöðvabólgu, eða minnsta kosti draga úr henni. Vonandi hjálpa eitthvað af þessum ráðum við það.
Takk fyrir að lesa