Ráð til verðandi foreldra

Nú erum ég og Hörður að fara að eignast okkar fyrsta barn í júlí 2020. Ég neita því ekki að okkur líður smá eins og við vitum ekkert hvað við erum að fara út í en við erum virkilega spennt að fá loksins að upplifa þessa yndislegu tilfinningu að vera foreldrar.

Ég ákvað að setja inn spurningabox á Instagram hjá mér þar sem ég bað aðra foreldra um að koma með ráð eða skilaboð fyrir verðandi foreldra. Þetta máttu vera allskonar ráð sem gætu hjálpað nýbökuðum foreldrum með sín fyrstu skref. Mig langaði að deila með ykkur ráðunum sem ég fékk send þar sem ég tel þetta geta hjálpað mörgum!

Tek það fram að þetta eru allt ráð og skilaboð til verðandi foreldra sem ég fékk send til mín á Instagram og ég skrifa þau beint eins og ég fékk þau.

Foreldrar og innsæið

 • „Hlusta á innsæið. Foreldrar í fyrsta skiptið vita alveg hvað þau eru að gera <3“
 • „Að ekkert barn er eins og maður á bara að hlusta á sig og sína tilfinningu“
 • „Móðureðlið er fljótt að koma, treysta á mömmu hjartað <3“
 • Alltaf að hlusta á maga tilfinninguna sína – ekki alla hina!“

Fæðingin

 • „Hafa opinn hug fyrir t.d. fæðingunni (ekki hægt að ákveða allt fyrir fram)“
 • „Fá góðan ljósmyndara til að mynda fæðinguna/strax eftir fæðinguna. Það er MÖST <3“
 • „Hefði viljað vita hvað það er nauðsynlegt að hvíla sig og sofa vel áður en maður fæðir“
 • „Þú þarft að fæða fylgjuna á eftir barninu svo að fæðingin er í raun ekki yfirstaðin þegar barnið er komið“
 • „Taka með nóg af þægilegum fötum á fæðingardeildina“
 • „Taka með dömubindi sem þú þolir á fæðingardeildina“
 • „Skipta um ljósmóður ef þessi sem er hjá þér virkar ekki fyrir þig“
 • „Ekki hafa of mikil plön og væntingar til fæðingarinnar. Allt getur gerst“
 • „Að vera ekki með væntingar t.d. fyrir fæðingu og brjóstagjöf EN jákvætt hugarfar samt sem áður“
 • „Að muna eftir því að kyssa maka sinn eftir fæðingu. Án alls gríns! Eftir að barnið fæddist sáum við ekkert annað en hann. Nokkrum dögum seinna kom koss og við föttuðum þá að við vorum búin að gleyma þessu. En fyrir utan það, þetta er mikil breyting fyrir par að koma með fyrsta barn og vera samtaka. Maður þarf því að vera duglegur að segja frá líðan, óskum og væntingum“

Tíminn eftir fæðingu

 • „Reyna eins mögulega og hægt er að njóta ein með barninu fyrstu dagana, heimsóknir geta beðið“
 • „Eiga nóg af góðum og næringarríkum mat þegar komið er heim af spítala er nr. 1!“
 • „Að þetta er bara tímabil sem tekur enda… oft er maður úrvinda af þreytu, sérstaklega fyrstu vikurnar“
 • „Það eru ekki öll börn móttækileg fyrir því að sofna sjálf“
 • „Hvað tíminn er fljótur að líða eftir að maður á barnið, 6 mánaða orlof flaug hratt!“
 • „Taka pásu frá umheiminum fyrstu dagana/vikurnar. Síminn á silent og njóta, sofa, kynnast“
 • „Að þú ert með úthreinsun í ca. 6 vikur eftir að barnið fæðist (lýsir sér nokkurn veginn eins og túr)“
 • „Barnið hefur svartar hægðir svolítið eins og tjara eða leðja og það er eðlilegt“
 • „Að legið dregst saman þegar barnið drekkur fyrstu dagana/vikurnar og því geta fylgt verkir“
 • „Hefði viljað vita af sængurkvenna grátinum áður en ég átti mitt fyrsta barn“
 • „Ekki berja þig niður þó að barnið sofi uppí hjá þér t.d. Sum börn eru svo óvær.. og þú veist meira en þú heldur. Ekki alltaf hlusta á ljósmóðurina heldur farðu eftir þínu innsæi“
 • „Að það kemur vond lykt af naflastrengnum rétt áður en hann dettur af“
 • „Þarf ekki að kaupa allt nýtt, kaupa notað og fá notað ef hægt. Þau vaxa víst svo fljótt“
 • „Setja mörk fyrir fjölskyldu og vini varðandi heimsóknir!!“

Ráð og punktar varðandi brjóstagjöf

 • „Brjóstagjöf er ekki sjálfsagt mál“
 • „Læra um brjóstagjöf og kaupa/leigja góða pumpu“
 • „Allt um brjóstagjöf! Líka að maður heyrir ekki í börnunum anda svona litlum (óþægilegt)“
 • „Hvað brjóstagjöf er sjúklega mikil vinna!“
 • „Vera sátt ef brjóstagjöfin heppnast ekki. Við erum ekki verri mæður fyrir vikið <3“
 • „Hvað brjóstagjöf er erfið! Þarf mjög mikla þolinmæði“

Mér þykir mjög vænt um öll ráðin sem ég fékk send og finnst mjög gaman að heyra ráð frá öðrum foreldrum! Það var margt sem ég vissi ekki og hafði ekki heyrt um áður og munu þessi ráð hjálpa helling.

Þér gæti einnig líkað við