Prjónaóskalisti

Nú þegar fer að kólna í veðri og styttist hratt í veturinn finnst mér tilvalið að deila með ykkur listanum yfir það sem mig langar að prjóna. Það er fátt betra en að vera í góðri kósý peysu eða sokkum þegar það er kalt úti og ennþá betra að mínu mati ef það er handprjónað með dass af ást í hverri lykkju. 

Í upphafi árs setti ég mér markmið að vera dugleg í ego prjóninu (að prjóna á sjálfa mig) en hef ekki gert eina einustu flík svo ég held það sé tímabært að ég fari að bretta upp ermar og geri eitthvað í þeim málum. 

Þessi listi minn er samt alls ekki bara með hugmyndum að verkefnum sem mig langar að prjóna á sjálfa mig, ég ætla líka að deila með ykkur hugmyndum fyrir herra og börn.

Fyrir mig

Fyrsta uppskriftin er Logn peysa eftir Bello knit. Ég hef séð margar deila myndum af þessari peysu á instagram og finnst hún svo ótrúlega klæðileg. Hugsa að hún væri mjög falleg yfir t.d. einlitan kjól eða við flottar gallabuxur. 

 

Gola er önnur peysa eftir Bello knit sem mig langar líka að prjóna. Hún virkar ótrúlega einföld og plain sem hægt er að dressa á svo marga vegu. Ég hef ekki ennþá prjónað neitt eftir þennan hönnuð en mér finnst hún gera margar fallegar uppskriftir sem mig langar mikið til að prjóna. 

 

Clotilde cardigan eftir Knitting for Olive er mjög ofarlega á mínum óskalista. Hef horft á hana í allt sumar en einhverra hluta vegna ekki látið verða að því að prjóna hana. Vonandi verður hún komin í minn fataskáp áður en veturinn er búinn! 

 

Það er eitthvað við Augustins no 1 sem heillar mig svo mikið! Ég hef ekki verið beint að klæða mig í svona peysur en mér finnst þessi geggjuð og langar SVO mikið í hana! 

Fyrir Atla

Mér finnst mun erfiðara að finna uppskriftir af fallegum flíkum á karlmenn heldur en kvennmenn eða börn. Það eru þó nokkrar sem ég hef rekist á og langar að gera. Fyrsta er Frost eftir Ömmu Loppu. 

 

Gustur herrapeysa eftir Bello knit er líka á listanum. Fallegt snið á henni og smáatriði.

 

Fyrir Tristan

Mér finnst mikilvægt að eiga góða lambúshettu fyrir Tristan og er Elefanthue eftir Knitting for Olive á listanum. Mér finnst hún svo ótrúlega krúttleg! 

 

Ægir samfestingur eftir Ömmu Loppu er á listanum. Ég er búin að prjóna einn svoleiðis galla sem stækkaði bara allt of mikið í þvotti og hann ætti að geta notað þegar hann verður svona 2 ára svo mig lagnar að prjóna nýjan á hann sem hann getur þá notað í vetur. Var virkilega skemmtilegt að prjóna hann og hann er líka bara svo ótrúlega fallegur!

 

Ég klæði Tristan mjög mikið í prjónaðar peysur ef við erum að fara eitthvað og nota þær oft sem hálfgerða jakka. Loki eftir Ömmu Loppu finnst mér fullkomin jakkapeysa á litla töffarann minn! Þið hafið kannski tekið eftir því að ég er mjög hrifin af uppskriftunum eftir Ömmu loppu en mér finnst þær bara svo fallegar og skemmtilegt að prjóna eftir þeim. Svo er hún líka svo skemmtileg á instagram! 

 

Ég er aðeins farin að huga að leikskólafötum og finnst alveg nauðsynlegt að börn eigi góð prjónaföt til að vera í á köldum dögum. Vík barnasettið eftir MeMe knitting finnst mér svo örðuvísi og fallegt og langar mig að prjóna það fyrir Tristan áður en hann fer á leikskólann. Uppskrift af settinu er seld í sitthvoru lagi, peysa og buxur

 

Þetta er svosem bara brot af óskalistanum mínum, í hvert skipti sem ég opna instagram bætist við hann. En ég vona að þessi samantekt hafi gefið einhverjum hugmyndir um hvað þeir geti prjónað næst!

Fyrir áhugasama held ég úti handavinnu instagram undir nafninu handarpat

Þessi færsla er hvorki kostuð né unnin í samstarfi

Þér gæti einnig líkað við