Prjónaðar gjafir

Þegar að líða fer að jólum fyllist hausinn á mér yfirleitt af hugmyndum hvað ég gæti prjónað i jólagjafir. Í flestum tilfellum er tímaramminn mjög óraunhæfur og ég næ ekki að prjóna eins margar gjafir og mig langar til. Árið í ár var engin undantekning nema að því leytinu til að ég setti mér markmið um síðustu áramót að byrja snemma á jólagjöfunum og geta þá frekar notið þess að prjóna þær í staðin fyrir að vera komin í tímaþröng og mikið stress. 

Ég byrjaði galvösk að prjóna jólagjöf í janúar og var ekkert smá ánægð með mig að byrja svona snemma! Ég myndi nú ná að klára þær nokkrar fyrir jólin með þessu áframhaldi. Ég byrjaði að prjóna vesti sem ég ætlaði að gefa litlum vin en planið var að gera annað eins fyrir eldri bróðir hans. Mjög fallegt vesti og ég hugsaði með mér að ég yrði nú ekki lengi að klára þessa litlu flík. Svo var ekki! Ég átti í bölvuðu basli með að skilja uppskriftina og gafst oft upp á að prjóna vestið. Gleymdist það þá ofan í skúffu í nokkrar vikur þangað til ég lagði í að halda áfram með það. Í ágúst gafst ég endanlega upp á þessu verkefni enda búið að taka alltof langan tíma og ég var komin með algjört ógeð af því að reyna að prjóna þetta og rakti það upp. Ég var alveg staðráðin í því að gefa þessum litlu vinum prjónaðar flík svo ég var fljót að fytja upp á næsta verkefni. Ég ákvað að prjóna lopapeysu fyrir þá í staðin og tók það mun styttri tíma og ég var virkilega ánægð með útkomuna og fegin að hafa skipt um skoðun þarna í miðju ferli eða svo.

Í byrjun nóvember var ég komin með 2 jólagjafir klárar og þið vitið, hausinn ennþá á fullu að hugsa hvað ég gæti nú búið til meira til að gefa, þegar mér dettur allt í einu í hug að prjóna peysu á Atla manninn minn í jólagjöf. Núna var heldur betur tækifærið til að prjóna án þess að hann tæki eftir því afþví hann var svo lítið heima. Var alltaf að vinna í húsinu okkar og ég taldi mig hafa nægan tíma til að henda í eina peysu eða svo fyrir jólin. Gleymdi kannski aðeins að hugsa út í að ég væri ólétt, í vinnu og að hugsa um heimilið og Tristan að mestu leyti ein svo Atli gæti haldið áfram í þessum framkvæmdum okkar. Ég vafraði um margar síður með fallegum uppskriftum og endaði loksins á að velja peysuna Gustur eftir Belloknit. Á singles day pantaði ég svo loksins garnið sem tók dágóðan tíma að koma til mín. Við fórum svo til útlanda þanngi ég byrjaði ekki á peysunni fyrir en í lok nóvember og var að verða smá efins um að ná að klára hana. Ákvað samt að slá til og byrja að prjóna. Það fór ekki betur en svo að peysan var ókláruð á Þorláksmessu þegar ég kláraði að pakka inn síðustu jólagjöfunum. Það vantaði á hana aðra ermina og hálfan búk eða svo. Peysan fór samt í jólapakkann og er það forgangsverkefni hjá mér núna að klára hana áður en ég fer að prjóna eitthvað annað!

Þetta er svosem ekki það eina sem ég prjónaði á árinu, mér tókst að klára 20 hluti/flíkur og er bara mjög sátt með það. Það er kannski ekki mikið fyrir marga en með öllu því sem ég hef gert á árinu er þetta bara alveg nóg og ég er mjög sátt með afraksturinn. Nokkrar sængurgjafir urðu til, flíkur fyrir Tristan, teppi og fleira sem ég hef gripið í á milli. Ég get aldrei verið bara með eitt verkefni í gangi í einu. Næsta sem mig langar að prjóna er heimferðargalli fyrir krílið okkar sem er væntanlegt í apríl. Auk þess langar mig að prjóna fleiri hlý föt á Tristan fyrir leikskólann og litlar flíkur fyrir krílið. Mér finnst alltaf svo fallegt að sjá lítil börn í prjónuðum fötum. 

Ég ætla að leyfa nokkrum myndum af því sem ég hef prjónað yfir árið að fylgja með en ef þið viljið fylgjast með handavinnunni minni þá eruð þið velkomin að fylgja mér á instagraminu mínu handarpat þar sem ég deili áhugamálinu mínu með öðrum.

 

Þér gæti einnig líkað við