Á ég inni fyrir þessu súkkulaði?

Eins og ég hef nefnt áður þá keppti ég í fyrsta skiptið í módel fitness árið 2016. Þegar ég byrjaði í niðurskurði þurfti ég að venja mig á það að borða hollt sex daga vikunnar og einn dag í viku mátti ég leyfa mér einhverja óhollari máltíð og smá nammi. Eftir fyrsta niðurskurðinn ákvað ég að halda þessu fyrirkomulagi, ég borða þá hollt sex daga vikunnar og einn dagur í viku er frjálsari en hinir. Þá fæ ég mér það sem mér finnst mjög gott, til dæmis bakarísmat, pizzu, nammi, ís eða hvað sem mér dettur í hug.

Það eru kannski ekki allir sem vita af því að ég er rosalega mikill nammigrís og mér finnst þessi óhollari matur alveg rosalega góður. Ég veit þó að mér líður svo miklu betur þegar ég borða hollt og þess vegna finnst mér best að reyna að halda mig við einn dag í viku þar sem ég fæ mér eitthvað óhollt. Það kemur þó alveg fyrir að ég leyfi mér eitthvað smá á þessum hollari dögum en það er þá ekki jafn mikið.

Ég viðurkenni alveg að í fyrstu fékk ég alltaf rosalega mikið samviskubit á þessum „svindldögum“ og fannst ég vera að eyðileggja allt saman þegar ég leyfði mér einhverja óhollustu. Ég átti það til að sjá rosalega eftir svindldeginum eftir á þar sem ég á það stundum til að borða frekar mikið þegar ég leyfi mér. Í gegnum tíðina hef ég þó lært að þessi eini dagur í viku er ekkert að fara að skemma neitt fyrir mér ef ég er dugleg að hreyfa mig og borða hollt hina dagana!

Nýlega hef ég því verið að reyna að koma því inn í hausinn á mér að njóta augnabliksins og vera ekkert að fá samviskubit, jafnvel þó ég borði kannski aðeins of mikið stundum.

„Maður þarf að vinna sér inn fyrir þessu páskaeggi“

Nú voru páskarnir að klárast og ég sá út um allt á samfélagsmiðlum setningar eins og „maður þarf að vinna sér inn fyrir þessu páskaeggi“, „núna er ég búin að brenna smá af þessu súkkulaði“ og fleiri svipaðar setningar þegar fólk dreif sig af stað og hamaðist í ræktinni til að bæta upp fyrir það að hafa leyft sér að borða þetta súkkulaði! Ég sá einnig einhverjar myndir þar sem búið var að lista upp hversu margar hitaeiningar voru í hverju eggi og hversu langan tíma það myndi taka að brenna því.

Ég viðurkenni að ég hugsaði svona fyrir nokkrum árum, ég tímdi varla að „leyfa mér“ að fá mér páskaegg og mér fannst ég sko þurfa að vinna mér inn fyrir því með því að taka svakalegar brennsluæfingar til að ná að brenna þessu öllu.

Ég setti inn skoðanakönnun í story hjá mér á Instagram um páskana þar sem ég spurði hvort fólk ætlaði að fá sér páskaegg um páskana. Ég varð rosalega hissa að sjá hversu margir ætluðu ekki að fá sér páskaegg. Auðvitað eru einhverjir sem borða ekki súkkulaði eða finnst það ekkert sérstakt en þarna er líka hópur af fólki sem finnst það ekki eiga það skilið að leyfa sér svoleiðis því það gæti fitnað af því.

Mér finnst þetta svo sorglegt þar sem það eru svo margir sem neita sér um svo margt þar sem þeir halda að eitt skipti sem þeir svindla á mataræðinu muni skemma allan árangur. Málið er að það er jafnvægið sem skiptir máli. Þessi eina svindlmáltíð eða óhollusta sem þú borðar er ekki að fara að skemma árangurinn fyrir þér alveg eins og eitt skipti sem þú borðar salat eða holla máltíð er ekki að fara að láta þig fara að ná árangrinum sem þú óskar eftir.

Í ár ákvað ég að taka annað hugarfar á þetta. Ég keypti mér það páskaegg sem mig langaði í og var búin að ákveða það að ég ætlaði bara að borða það með góðri samvisku! Ég ætlaði ekki að fara í ræktina til að „refsa mér“ eða „eiga inni fyrir þessu páskaeggi“. Ég ætla þó ekki að segja að ég hafi hangið heima í sófanum alla páskana að borða. Ég hélt áfram minni rútínu sem samanstendur af daglegum æfingum og hollu mataræði en ég borðaði líka mitt páskaegg og æðislegan páskamat hjá mömmu og pabba.

Æfingarnar voru ekki hugsaðar til þess að bæta fyrir óhollara mataræði en vanalega heldur hugsaði ég að það væri tilvalið að nýta alla þessa orku sem ég fékk frá þessum gómsæta mat og taka frábæra æfingu! Æfingarnar sem ég tók yfir páskana voru líka alveg geggjaðar og hef ég sjaldan verið jafn orkumikil og mótiveruð á æfingum.

Ég viðurkenni það alveg að ég kláraði allt páskaeggið mitt á páskadag og ég veit það fullvel að það er alveg rosalega mikið af hitaeiningum í einu eggi en mér er bara alveg sama! Þessi hátíð er einu sinni á ári og ég ætlaði ekki að velta mér upp úr því hversu margar hitaeiningar væru í hverju eggi.

Það er ekki gott fyrir neinn að vera alltaf að neita sér um allt í lífinu. Þegar það koma hátíðir finnst mér ekkert að því að njóta með fjölskyldu og vinum og vera ekki alveg jafn strangur við sig og maður er hina mánuðina. Það er enginn að segja að maður þurfi að liggja í konfektinu, kökunum og óhollustunni alla daga og hætta að hreyfa sig. Það er hægt að njóta í hófi og halda áfram sinni rútínu í hreyfingu.

Ég vona það innilega að þið hafið átt góða páska og notið þeirra með fjölskyldu og vinum.

Þangað til næst,
Ása Hulda

Þér gæti einnig líkað við