Ég er ólétt að mínu öðru barni. Þessi og síðasta meðganga eru eins og svart og hvítt. Þessi meðganga byrjaði á því að ég var greind með meðgöngusykursýki. Sem kom mikið á óvart því ég tikka ekki í neitt box fyrir einkenni hennar. En ástæðan fyrir því að ljósmóðir mín sendi mig í blóðprufu er útaf því að þegar ég var uppi á spítala síðast að eiga þá sagði ég starfsfólkinu að ég hafði verið svo brálæðislega þyrst alla meðgönguna og svo sáu þær í skýrslunni að ég hafði farið í vaxtasónar nokkrum vikum áður því bumban á mér var smá stór og var búist við því að barnið yrði stórt. Þetta tvennt er einkenni meðgöngusykursýki og skráðu þær í skýrsluna mína að það þyrfti að athuga það næst þegar ég yrði ólétt. Stelpan mín fæddist 17 merkur sem er ekki lítið en samt flokkast það ekki sem þungburi. Ég fór í blóðprufu núna fyrir jól og var greind með meðgöngusykursýki á 10. viku. Þetta er svosem ekkert stórmál en það þarf að passa uppá mataræðið og heilsuna og mæla sig.
Ekki nóg með það en þá fór að blæða hjá mér viku fyrir jól og fylgdi því ákveðið stress og átti eftir að blæða tvisvar sinnum eftir það. Það blæddi fyrst þriðjudaginn 17. desember. Við vorum á jólakvöldi Tvíhöfða og ég var búin að vera með mikla verki fyrri hlutann af sýningunni, svona eins og vonda túrverki. Ég ætlaði að fara á klósettið í hlénu en það var brjáluð röð þannig að ég beið eftir að hléið var búið. Þegar ég sit að bíða finnst mér eins og það sé að leka hjá mér, svona eins og þegar maður er að byrja á túr. Mér fannst þetta eitthvað einkennilegt og komst loksins á klósettið. Ég settist og leit niður, ég sá blóð leka niður klósettskálina og í nærbuxunum mínum. Ég fraus. Þetta var ekki blóðrautt heldur smá útí bleikt en það kom slatti. Ég panikkaði og hringdi í Óla sem sat inni í sal og sagði honum að koma. Ég hringdi í systur mína sem er hjúkrunarfræðingur og er líka ólétt og spurði hana hvort ég ætti að hringja uppá deild. Hún fann númerið fyrir mig og ég hringdi. Það svaraði yndælis kona sem reyndi að róa mig niður og sagði mér að þó það blæði þá þýði það ekki endilega eitthvað slæmt. Ég var nú samt í móðursýkiskasti, enda aldrei upplifað svona og vissi auðvitað ekki hvort allt væri í lagi. Við fórum heim, var í engu standi að klára sýninguna. Ég svaf ekkert um nóttina. Ég átti tíma í 12 vikna sónar eftir 6 daga, átti ég bara að bíða þangað til og vona að allt væri í lagi? Ég var ekki að fara undirbúa jólin með kvíðahnút í maganum. Ég hringdi á heilsugæsluna mína um morguninn og sagði ljósmóðir mín mér að koma og þau myndi leita eftir hjartslættinum. Hún skyldi mig fullkomlega, auðvitað vildi ég vita hvort allt væri ekki í lagi með barnið. Hún fann ekki hjartsláttinn strax, enda erfitt að finna hann þegar maður er kominn svona stutt á leið. Hún var sem betur fer með sónartæki á svæðinu sem hún náði í. Hún var í smá stund að sjá barnið en þarna var það, spriklandi og með flottan hjartslátt. Guð hvað mér var létt. Ég fór út í bíl og hágrét, fékk algjört spennufall.
Það síðasta sem maður vill sjá þegar maður er óléttur er að það blæði.
12 vikna sónarinn gekk mjög vel og allt leit vel út.
Sunnudagskvöldið 29. desember fékk ég aftur svona svakalega verki. Ég lá í rúminu allt kvöldið alveg að drepast. Svo um nóttina, aðfaranótt mánudags 30. desember, þá vakna ég til að pissa, eins og allar aðrar nætur. Ég fer inná bað og klára að pissa og leggst svo upp í rúm. Ég er búin að liggja í smá stund þegar ég fann að það lak svakalega úr mér. Ég vissi að þetta væri blóð. Ég hljóp inná bað og nærbuxurnar voru alblóðugar. Ég átti sem betur fer tíma hjá ljósmóður minni daginn eftir. Ég sagði henni hvað hefði gerst og athugaði hún strax með hjartsláttinn. Hún fann hann strax, sterkur og flottur. Hún vissi auðvitað ekki af hverju var að blæða, það gæti verið leghálsinn, fylgjan eða eitthvað annað. En hún sagði að ef það myndi blæða aftur þá þyrfti ég að fara uppá spítala og athuga málið.
Aðfaranótt föstudagsins 3. janúar þá vakna ég til að fara pissa.
Þegar ég er búin þá stend ég upp og leit niður og sá blóð leka niður innanvert lærið á mér.
Ég stóð kjurr í smá stund… horfði bara niður. Var svo þreytt andlega, hvað var í gangi. Ég hringi uppá spítala um morguninn og sögðu stúlkurnar mér að koma til þeirra í heimsókn. Ég hitti yndislega hjúkrunarfræðinga og lækni. Þau kíktu á mig og sagði læknirinn mér að það væri að blæða úr fylgjukanntinum. Það var búið að vera brjálað mikið að gera hjá mér og vinnan að byrja að fullu eftir jólafrí. Ég er í þannig vinnu að ég er á fótum allan tímann, labbandi hingað og þangað og beygja mig mikið niður og upp. Þannig að læknirinn skrifaði upp á 10 daga vottorð fyrir mig og sagði mér að liggja fyrir. Ég þyrfti að passa mig. Það hefur ekki blætt aftur en ég þarf að fara varlega. Ég þarf að passa alla líkamlega vinnu og helst slaka á þegar ég get því það getur blætt aftur. Ég fæ stundum þessa verki og mikinn þrýsting sem er mjög óþægilegt en ég fer þá bara extra varlega og leggst niður ef ég get. Ástæðan fyrir þessum blæðingum úr fylgjukanntinum er sú að fylgjan er mjög neðarlega en hún getur færst ofar og fæ ég að vita það í 20 vikna sónarnum hvort það hafi gerst.
Þessi fyrri helmingur meðgöngunnar er búinn að vera frekar dramatískur og erfiður en ég vona að seinni helmingurinn verði betri.
xo
Guðrún Birna