Ódýrt snjallúr sem ég mæli með

Um daginn var ég að leita mér að ódýru snjallúri til að geta fylgst með skrefum og svefni hjá mér. Ég átti Fitbit versa áður sem mældi bara svefninn minn þrisvar í viku að meðaltali og það úr var rándýrt. Því langaði mig til að prófa bara eitthvað ódýrt úr núna, þar sem gæði og verð virðist ekki alltaf fara saman í þessum efnum. 

Ég spurði á facebook og þar var ein sem mældi með Mi Fit 4, ódýru snjallúri sem hún hafði keypt erlendis og var þvílíkt ánægð með. Ég hafði aldrei heyrt um þetta merki áður og spurði því vin minn google. Ég er haldin svokallaðri núna-veiki og því vildi ég kaupa úrið hérlendis, svo ég þyrfti ekki að bíða í marga daga með að fá það í hendurnar. 

Ég endaði á síðunni hjá Tunglskin og fann þar þetta úr, sem og nýrri týpuna; Mi Fit 5. Ég vissi ekki af þessari verslun, hafði aldrei heyrt um hana áður, en ákvað samt að panta mér eitt stykki. Maður er alltaf smá efins þegar maður pantar af svona síðum sem maður hefur ekki heyrt um áður. En ég pantaði úrið 11.nóv og var það komið hingað á Akranes daginn eftir. Ég ákvað að panta týpu 4, þar sem það var á 11/11 tilboði og kostaði innan við fimm þúsundkall! 

ÞETTA er úrið sem ég keypti. Ég byrjaði að nota það seinnipartinn 12.nóv eftir að hafa hlaðið það að fullu. Hleðslan dugir endalaust á þessu úri, en ég setti það ekki í hleðslu aftur fyrr en um morguninn þann 27.nóv. Þá var rafhlaðan samt sem áður bara rétt svo komin niður í um 20%. Úrið kostar 5.990 kr í dag sem er náttúrulega eitthvað grín verð, miðað við möguleikana í þessu úri. Þetta er mest selda snjallúr í heiminum í dag, samkvæmt upplýsingum sem ég fann á heimasíðunni. 

Maður sækir app í símann sem heitir Mi Fit og það kostar ekki neitt, og þar getur þú fylgst með öllu. Þú getur tengt allar tilkynningar úr símanum við úrið, þannig að þú sjáir þegar er hringt í þig, þegar þú færð skilaboð og fleira. Einnig getur þú sett inn tónlist og stjórnað í úrinu. Ég hef ekki nýtt mér þessa valkosti, en á alveg pottþétt eftir að prófa. 

Úrið er vatnshelt svo maður getur farið með það í sund. Ég hef ekki getað prófað það, þar sem sundlaugar eru búnar að vera lokaðar. En ég fer með úrið í sturtu og það þolir það alveg. HÉR er hægt að lesa á heimasíðu framleiðandans um alla möguleika úrsins. Úrið mælir skref, svefn, púls, göngu, hlaup, hjól, sund og “freestyle” æfingar og hægt er að fylgjast með veðrinu líka. Ég nota úrið þegar ég fer í göngutúra, stilli á göngu og þá lætur það mig vita á kílómetra fresti: tímann, hraðann og púlsinn. Ég held ég gæti bara ekki mælt meira með þessu úri, ég er svo ótrúlega ánægð með það. Maður er að fá svo mikið fyrir peninginn. 

Í dag er svo komið út Mi Fit 5 sem er betrumbætt útgáfa af Mi Fit 4 hvað varðar útlit, skynjara, örgjarva og þess háttar. Það er aðeins stærra og býður upp á fleiri útgáfur af hreyfingu, eins og til dæmis jóga og sipp. Í útgáfu 5 er einnig komin sérstök kvennaheilsa sem gerir þér kleift að fylgjast með tíðahring og egglosi.  

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, mig langaði bara svo til að mæla með þessu úri. Þetta er algjör snilld fyrir fólk eins og mig, sem finnst gaman að fylgjast með skrefum, svefni, púls og öllu þessu helsta, án þess að þurfa að eyða tugum þúsunda. Ykkur er velkomið að senda mér spurningar á instagram varðandi úrið. 

Þessi færsla er ekki unnin í samstarfi. 

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við