Eins og ég sagði ykkur frá um daginn þá fór ég í helgarferð til Prag fyrir stuttu. Ég var búin að hugsa mjög lengi um að fá mér stórt flúr á upphandlegginn og ákvað nokkrum vikum fyrir ferðina að athuga með verð á slíku í Prag og hvort ég myndi finna einhvern hæfileikaríkan flúrara þar í verkið. Mig langaði ekki að fara bara á einhverja stofu til þess eins að fá ódýrt flúr. Þar sem ég vildi hafa flúrið stórt, þá langaði mig að fá einhvern metnaðarfullan til að gera það fyrir mig. Í leit minni rakst ég á stofu sem heitir því skemmtilega nafni HOMIE TATTOO STUDIO og fannst mér allir flúrararnir þar vera hver öðrum betri. Ég skoðaði instagrömmin hjá þeim öllum og það var einn sem mér fannst bera af og flúrin hans voru akkúrat í þeim stíl sem ég var að leitast eftir. Hann kallar sig ONEKOKO á instagram. Ég sendi honum mynd af flúri sem var sirka eins og ég vildi og hann sendi mér til baka verðtilboð. Ég spurðist fyrir heima og komst að því að ég fengi þessa stærð af flúri ekki á þessu verði hérlendis. Þá var þetta innsiglað. Ég bóka tímann og hann sendir mér svo til baka nokkrar pælingar varðandi flúrið sjálft.
Þegar ég mæti á staðinn þá er hann búinn að teikna upp mynd sem var svo mikið flottari en upprunalega myndin sem ég sendi honum. Ég var ekkert smá ánægð með metnaðinn í þessum gaur! Það voru nokkur atriði sem við breyttum þar sem hann vissi náttúrulega ekki nákvæma stærð á handleggnum mínum og ég beið í sirka 40 mín á meðan hann lagaði myndina. Svo var komið að því að staðsetja flúrið á handlegginn minn og það sem gaurinn stúderaði það! Það tók örugglega hálftíma fyrir hann að vera ánægðan með staðsetninguna, hann kallaði fram aðra starfsmenn til að fá álit og sótti einhver ljós og bað mig um að snúa mér svona og hinsegin til að meta hvort staðsetningin væri rétt. Mér fannst svo ótrúlega fyndið að þegar ég mæti er gaurinn í brúnni ullar rúllukragapeysu með flotta klippingu, en áður en hann byrjaði svo að flúra þá fór hann inn og skipti um föt. Hann kemur fram íklæddur svörtum bol með mynd af hauskúpu og derhúfu sem hann snýr öfugt. Þá var kappinn klár í djobbið. Ég átti smá erfitt með að fara ekki að hlægja.
Flúrið sjálft tók svo um 6 klukkutíma! Þetta er þægileg staðsetning á flúri að því leytinu til að það var nánast engin sársauki, aðal óþægindin voru að þurfa að liggja í stólnum allan tímann. Hann tók sér 5-10 mínútna pásu á klukkutíma fresti, þá gat ég staðið upp og hreyft mig aðeins sem var mjög kærkomið. Gaurinn talaði ekki mikla ensku svo við vorum ekkert mikið að spjalla, sem hentaði mér bara mjög vel þar sem mér leiðist svona “chit-chat” við ókunnugt fólk….
Það var svo gaman að sjá hvað hann var vandvirkur. Hitt starfsfólkið var líka að koma reglulega við að kíkja og taka myndir fyrir instagrammið. Mér fannst stemmningin á stofunni svo skemmtileg og mér leið rosalega vel þarna. Undir lokin þegar hann var svo að klára flúrið þá þreif hann það örugglega svona tíu sinnum því hann vildi alltaf laga aðeins meira eða skyggja aðeins meira. Eins mikið og ég var orðin þreytt, svöng og langaði að komast út þá kunni ég svo vel að meta þennan metnað. Hann stillti mér svo upp fyrir framan ljósið og tók myndir og video fyrir instagrammið sitt.
Ég borgaði fyrir þetta 70.000 kr og fékk umbúðir til skiptanna, sótthreinsandi sápu og krem með í sætum gjafapoka. Mér fannst það mjög skemmtilegt, sérstaklega þar sem ég var erlendis og nennti ekki að þurfa að standa í því að leita af Apóteki til að kaupa eitthvað krem. Ég er ótrúlega sátt með útkomuna og flúrið greri mjög hratt og vel. Ég get allavega mælt mjög mikið með þessari stofu og öllum sem á henni vinna, þvílík fagmennska.
Takk fyrir að lesa