Nýtt íslenskt hlaðvarp – hvernig ég fór að

Ég steig svo langt út fyrir þægindarammann minn um daginn og lét loksins verða að því að stofna minn eigin hlaðvarpsþátt. Ég var búin að vera með þessa hugmynd í kollinum síðan árið 2019, en þorði aldrei að láta verða að þessu fyrr en núna. Ég var alltaf að hugsa um hvað öðrum myndi finnast þetta asnalegt og lét einhverjar svona efasemdir hafa áhrif á mig. Þangað til einn daginn, ég ákvað bara að ég ætlaði að gera þetta. Fyrst ég var búin að hugsa þetta svona lengi þá var greinilegt að þessar hugsanir voru ekki að fara neitt.

Hlaðvarpsþátturinn minn fjallar um Eurovision og heitir einfaldlega ÉG ELSKA EUROVISION! Ég er nú þegar búin að taka upp og birta sjö þætti og er búin að plana dagskrá fram í tímann einhverja átta þætti til viðbótar. Þannig að ég er bara rétt að byrja. 

Ég nota forrit sem heitir ANCHOR til að taka upp þættina. Það gæti ekki verið einfaldara í notkun. Maður getur tekið einn þátt upp í nokkrum tökum og púslað saman, sett tónlist í bakgrunninn eða á milli klippa og einnig allskonar hljóð. Það er ekkert mál að klippa upptökurnar til eins og þarf. Eyða út upptökum, bæta við og endurraða. Ég hefði ekki getað trúað hversu einfalt þetta er! Eins og er þá á ég ekki míkrafón svo ég er bara að tala í hátalarann á ipadinum þar sem ég er að taka upp þættina. En ég er búin að panta mér míkrafón og hann er á leiðinni til mín. Hlakka svo til að taka upp þættina með míkrafón og heyra muninn á hljómgæðum! 

Forritið Anchor sér svo um að deila þáttunum fyrir mann á allra helstu hlaðvarpsveiturnar, eins og til dæmis Spotify og Apple podcast. Um daginn komst þátturinn minn einmitt í 97.sæti á Apple podcast vinsældarlistanum! Þvílíkt moment sem það var fyrir mig! Núna er draumurinn bara að fara ofar á listann og komast svo líka á topplistann hjá Spotify, það er svona aðal takmarkið myndi ég segja. 

Það er alveg smá vinna að vera með svona hlaðvarp. Ég skrifa handrit fyrir hvern þátt sem er sirka 7 blaðsíður með 2 punkta línubili og það gerir um 15-17 mínútna þátt. Ég reyni að passa mig samt að vera ekki að lesa handritið of mikið svo þættirnir verði ekki þurrir og enginn persónuleiki komist til skila. Fyrstu tveir til þrír þættirnir mínir eru samt kannski pínulítið þurrir þar sem ég var svona ennþá að komast í gírinn og finna út hvernig best væri að gera þetta. En ég er öll að koma til núna og  verð öruggari og öruggari með hverjum þættinum. Þetta er alveg ótrúlega gaman og sé ég sko ekki eftir að hafa látið verða að þessu. 

Ég er búin að stofna Facebook like síðu fyrir hlaðvarpið sem og Instagram síðu, sem heita báðar “Ég elska Eurovision”. Ég ætla að deila þar efni tengdum þáttunum og setti einmitt story í gær um innihald sjöunda þáttarins. Ég vistaði story-ið í highlights á Instagramminu svo hægt sé að nálgast það hvenær sem er. Ég sýndi smá brot úr þeim lögum sem ég fjallaði um í þættinum og gaf fólki kost á að kjósa hvort það fílaði lagið eða ekki. 

Endilega skellið í follow á síðurnar mínar, sem og á þáttinn sjálfan á þeirri hlaðvarpsveitu sem þið notið. Það hjálpar allt saman við að gera hlaðvarpið mitt sýnilegra og komast þannig á vinsældarlistann á Spotify. Ég yrði ykkur óendanlega þakklát. 

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við