Núna er kominn mánuður síðan ég flutti í nýja íbúð og er ég komin nokkuð langt í að koma mér fyrir. Það eru samt ennþá nokkrir hlutir sem ég á eftir að kaupa og hlutir sem ég á eftir að hengja upp og þess háttar, en meiri hlutinn er samt kominn. Okkur mæðgum líður ótrúlega vel á nýja staðnum, með útsýni yfir Akrafjallið og Snæfellsjökulinn, við gætum varla hafa fengið betri staðsetningu. Íbúðin okkar er þriggja herbergja, tæplega 80 fm og erum við í endaíbúð á neðri hæð í tveggja hæða fjölbýli. Húsið er nýtt og erum við því fyrstu íbúar þessarar íbúðar, sem er ótrúlega skemmtilegt. Ég hef aldrei verið í svona nýju húsnæði áður og það kemur mér mikið á óvart hvað ég er búin að vera dugleg að þrífa síðan við fluttum inn. Ég held að ég sé búin að ryksuga jafn oft á þessum mánuði og ég gerði allt árið sem ég bjó á Holtsflötinni haha. Það er bara svo mikið skemmtilegra að hafa allt hreint þegar það er svona nýtt og flott.
Ég á eftir að kaupa ljós á alla íbúðina, við erum ennþá bara með rússneskar. Mér finnst það vera eitthvað sem má bíða þangað til allt annað er tilbúið, svo að ljósin geti þá soldið sett punktinn yfir i-ið í lokin. Ég þarf að kaupa nýtt eldhúsborð þar sem miklar skemmdir eru á því sem ég er með núna og því þarf ég að hafa dúk yfir því. Eins keypti ég bara tvo eldhússtóla og á því eftir að kaupa tvo til viðbótar. Nýr sófi og sófaborð er líka á óskalistanum mínum, sem og falleg gólfmotta undir. Það er samt ekkert sem liggur á, en mig langar rosalega mikið í aðeins stærri og mýkri sófa, sá sem ég er með núna er dökkbrúnn leðursófi og er alltof lítill. Ég er rétt rúmlega 160 cm og ég næ ekki að teygja úr mér í honum! Einnig er uppþvottavél ofarlega á óskalistanum mínum. Það er gat í eldhúsinnréttingunni þar sem gert er ráð fyrir uppþvottavél og finndist mér fallegast að fylla það með einni slíkri. Ég er samt mjög léleg að elda þannig að það er nú ekki mikið um uppvask á heimilinu, svo það liggur ekki mikið á því. Ég á líka ennþá eftir að hengja myndir og spegla uppá veggi og þarf ég að fara að drífa mig í því. Ég held að það muni strax gera mjög mikið fyrir íbúðina. Gardínumálin eru líka ennþá í skoðun, ég setti bara upp gardínur sem ég átti til að hafa á meðan ég er ákveða hvernig ég vil hafa þær. Mér finnst ótrúlega gaman að dunda mér svona við þetta og koma mér fyrir hægt og rólega. Ég mun svo leyfa ykkur að fylgjast með framhaldinu.
Takk fyrir að lesa.