Nýtt ár

Ég kveð árið 2019 mjög þakklátt og sátt en tek jafnframt á móti nýju ári spennt og ákveðin í að nýta komandi ár ennþá betur. Ég byrjaði daginn á að fara yfir markmiðin sem ég setti mér fyrir árið 2019, merkti við þau sem ég hafði náð og greindi í huganum þau markmið sem ég náði ekki, hverjar ástæðurnar fyrir því gætu verið og hvort þetta væru markmið sem ég vildi virkilega ná og taka þá með mér áfram á næsta ár. Að því loknu setti ég mér svo markmið fyrir árið 2020. Ég hef gert þetta svona í nokkur ár og hentar þetta fyrirkomulag mér mjög vel.

Mig langaði til að kveðja árið 2019 með smá yfirferð.

Það sem gerðist meðal annars hjá mér á árinu var:

  • Flutti í nýja íbúð
  • Fengum okkur kettling, krúttið hana Matthildi
  • Fór á tónleika með Hatara á 38.ára afmælisdaginn minn
  • Fékk í gegn breytingu á starfi mínu ásamt launahækkun
  • Fórum í langþráðu Ítalíu-roadtrip ferðina
  • Hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu
  • Fór í fyrsta skiptið á Vestfirðina í vinnuferð til Ísafjarðar
  • Bætti mig í hinum ýmsu Crossfit æfingum
  • Fór til Stykkishólmar um verslunarmannahelgina og rúntaði um Snæfellsnesið
  • Fór á Ed Sheeran tónleikana
  • Fór í árshátíðarferð með vinnunni til Prag
  • Fékk mér fyrsta stóra húðflúrið mitt
  • Skráði mig í fjarþjálfun í Ólympískum lyftingum og Crossfit-fimleikum

Ég var nokkuð dugleg að heimsækja vinkonur og fjölskyldu þetta árið, en mig langar til að gera ennþá betur í því á næsta ári. Einnig langar mig að reyna að verða umhverfisvænni, til dæmis með því að muna eftir að taka poka með mér í búðina og þess háttar. Mig langar til að vera duglegri að þrífa heima hjá mér, fara í göngutúra, borða aðeins minna nammi og svona heilt yfir hugsa aðeins betur um heilsuna, sem ég á til að taka aðeins of sjálfsagða. Ég ætla að æfa mig meira á gítarinn, þar sem ég gæti talið á fingrum annarrar handar þau skipti sem ég æfði mig á þessu ári, sem er alls ekki nóg ef ég ætla einhverntímann að geta spilað eitthvað. Mig langar til að ferðast meira og eyða minni pening í óþarfa. Ég er búin að setja mér nokkur Crossfit markmið sem mig langar að ná á árinu eins og ég geri alltaf. Á þessu ári náði ég næstum öllum Crossfit markmiðunum mínum, nema ég get ennþá hvorki gert strict upphífingu né handstöðu, svo þau markmið færast yfir á næsta ár. Mér finnst mjög þægilegt að setja mér nokkur svona markmið sem miða öll að því að komast nær því að vera besta útgáfan af sjálfri mér og gera þá hluti sem láta mér líða vel.

Annars langar mig til að þakka ykkur öllum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óska ykkur gleðilegs nýs árs.

Sjáumst 2020

Þér gæti einnig líkað við