Nú er byrjað nýtt ár og flestir stefna á betrumbætur hjá sjálfum sér. Hvort sem það er að hreyfa sig meira (eða byrja að hreyfa sig), borða hollar, grennast, massast, hitta fjölskyldu og vini oftar og svona gæti ég lengi talið. Í mínum huga er þetta allt gott og blessað. Um að gera að nýta áramótin til að setjast niður og fara í smá sjálfskoðun. Í hverju getur maður staðið sig betur? Náðiru markmiðunum sem þú settir þér fyrir síðasta ár, og ef ekki, þá er kannski gott að reyna að finna ástæðuna fyrir því? Ertu kannski að setja þér of stór og óraunhæf markmið? Það getur samt verið gott að hafa líka einhver stór markmið sem hræða mann örlítið, því það er víst þannig að þægindaramminn, hann kemur manni ekki langt í lífinu. Til að ná virkilegum árangri í einhverju, í rauninni sama hverju, þá þarf maður að fara út fyrir þægindarammann sinn, og bara láta vaða. Það gerist ekki margt ef maður þorir ekki að láta á reyna.
Það vilja allir verða besta útgáfan af sjálfum sér og það er vel hægt með góðri markmiðasetningu og litlum skrefum á hverjum degi sem koma manni í þá átt. Munum samt að Róm varð ekki byggð á einum degi og enginn er fullkominn. Það er eðlilegt að eiga off daga og ná ekki hverju einasta markmiði sem maður setur sér. Hins vegar þá þarf maður líka að kunna að díla við það. Ekki stroka markmiðið út af listanum og gefast upp. Kannski þarf maður aðeins að hagræða markmiðinu, t.d. með því að skipta því niður í nokkur lítil markmið sem verða svo með tímanum að stóra markmiðinu.
Mig langar að segja ykkur frá nokkrum af mínum markmiðum sem ég setti mér fyrir þetta ár. Ég skipti mínum markmiðum í tvennt. Annars vegar CrossFit markmið og svo hins vegar markmið sem snúast að öðrum hlutum í lífi mínu. Ég myndi segja að stærsta markmiðið sem ég setti mér fyrir þetta ár var að hætta að naga puttana á mér. Ég hef nagað síðan ég man eftir mér og oft “reynt” að hætta, en ekkert alvarlega. Strax í byrjun árs leitaði ég ráða hjá Instagram fylgjendum mínum um ráðleggingar til að aðstoða mig við þetta verkefni. Ég skrifaði niður öll ráðin og byrjaði svo bara á því einfaldasta. Ég mun gefa hverri ráðleggingu um mánuð til að sjá hvort hún sé að virka fyrir mig, og ef ekki, þá mun ég snúa mér að næstu. Ég ÆTLA að hætta að naga núna, það er bara þannig. Fyrsta ráðleggingin sem ég er að prófa núna er að bera á neglurnar Anti-Bite, sem er með vondu bragði og á að halda manni frá því að naga. So far, so good. Hef ekkert nagað síðan ég byrjaði að nota þetta og nú eru komnir 6 dagar. Hef reyndar einstaka sinnum staðið mig að því að kroppa, en hætt um leið og ég hef áttað mig á því. Það er meira en að segja það að hætta svona áráttuhegðun, sem líklegast er komin til vegna stress og/eða kvíða í gegnum árin.
Annað markmið sem ég setti mér var að læra að spila 2 lög á gítarinn. Eftir að hafa verið með það markmið í mörg ár að læra að spila á gítar og aldrei gert neitt í því, þá lét ég loksins verða að því í fyrra að kaupa mér gítar og fara á námskeið. Ég hins vegar náði ekki að læra að spila neitt lag. Svo það fór á listann minn fyrir þetta ár og ég er mjög spennt að fara aftur á gítarnámskeið, sem verður vonandi í febrúar eða mars. Ég hef því miður ekki tök á því strax, en ég get æft mig heima með aðstoð Youtube að sjálfsögðu.
Síðasta markmiðið sem mig langar að segja ykkur frá er Ítalíuferðin okkar Elínar. Okkur hefur dreymt um þessa ferð í mörg ár og talað mikið um hana, en aldrei fundist eins og hún gæti orðið að veruleika fyrr en núna. Þess vegna setti ég hana á markmiðalistann minn. A dream is a dream, until you write it down, then it becomes a goal!
Ég kýs að setja engin markmið sem snerta útlit eða tölu á vigt. Ég set mér frekar markmið sem snúast um að ná árangri í minni hreyfingu og eru mælanleg að því leyti. Ég hef dvalið í fangelsi megrunarkúra í alltof mörg ár af minni ævi og hef tekið ákvörðun um að bjóða sjálfri mér ekki uppá það lengur. Lífið er einfaldlega of stutt til að banna sér það sem manni þykir gott. Og frelsið krakkar, FRELSIÐ sem fylgir því að MEGA borða allt sem ég vil þegar ég vil. Það gerir það að verkum að ég hef ekki lengur þörf til að éta á mig gat og fæ ekki stanslaus cravings í hinn og þennan mat. Ég þarf ekki að taka frí frá mataræðinu mínu um helgar eða þegar ég fer í ferðalög. Lífið mitt snýst ekki um mat lengur og ég er ekki heltekin af því að verða mjó. Mig langar bara svo mikið að allir upplifi þetta frelsi og líði vel í eigin skinni. Það er miklu auðveldara að hugsa vel um sig ef manni líður vel.
En ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili,