Síðastliðinn föstudag ákváðum við mæðgurnar að stækka fjölskylduna okkar og fengum við okkur kettling. Fyrir eigum við kisuna hana Jósefínu, sem flutti til foreldra minna þegar við vorum í húsnæði þar sem mátti ekki hafa gæludýr. Nú er hún búin að vera þar í 2 ár og hún og pabbi orðin það góðir vinir að það var ekki í boði að taka hana af honum. En eins og þeir sem þekkja mig vita er ég rosaleg kisumanneskja. Ég elska kisur meira en börn. Og nei, ég er ekki að ýkja. Þannig að um leið og við vorum fluttar í nýtt húsnæði fór ég á stúfana til að finna réttu kisuna fyrir okkur. Kisan sem varð fyrir valinu var í Reykjavík, svo ég brunaði í bæinn á föstudagskvöldi með búr og sótti hana.
Áður en ég fór að sækja hana var ég búin að gera allt tilbúið fyrir hana heima. Búin að kaupa kassa fyrir kattasand, poka til að setja undir sandinn og auðvitað sandinn sjálfann. Ég keypti tvær tegundir af kettlingafóðri, skálar fyrir matinn og vatn, klórustaur og dót. Hún mjálmaði ansi mikið í bílnum á leiðinni heim og ég vorkenndi henni svo mikið. En svo virðist hún hafa sofnað í göngunum og heyrðist ekkert í henni það sem eftir var af leiðinni. Þegar við komum heim var hún pínu hrædd fyrst og ég leyfði henni bara að fela sig aðeins og svo þegar hún fór að skoða sig um þá lét ég hana bara vera. Ég settist í sófann og fór að horfa á Despó og það leið ekki á löngu þangað til hún var lögst ofan á mig og horfði á Despó með mér allt kvöldið. Ég reyndi nokkrum sinnum að setja hana hjá matnum sínum og sandinum, en hún vildi ekkert með það hafa. Hún svaf svo uppí hjá mér alla nóttina og fór ekki á fætur fyrr en ég fór á fætur, og þá fór hún beint í kassann sinn og fékk sér svo smá að borða og drekka. Ekkert smá dugleg!
Núna er hún búin að vera hjá okkur í 5 daga og er öll að koma til. Hún er ennþá pínu kvekkt ef það er mikið að gerast (við erum enn að setja saman húsgögn og þess háttar sem fylgja stundum læti), en að öðru leyti elskar hún að vera hjá okkur og er mikil félagsvera. Hún eltir mann út um allt, er rosa dugleg að leika sér og borða og sefur mikið. Hún sefur ýmist ofan á manni eða á koddanum manns, hún er ekki svona handakrika kisa eins og Jósefína. Ég vaknaði við það í morgn að hún sat beint fyrir framan mig í rúminu og horfði á mig og fór svo að reyna að taka og sleikja augnhárin mín. Hún er ekki mikið fyrir það að fara ein á fætur hahha.
Þegar hún er komin með aldur og þyngd til þá mun ég fara með hana til dýralæknis í geldingu og allar þær bólusetningar og merkingar sem mælt er með. Ef þú ert að fá þér kettling, þá er þetta kostnaður sem á alltaf að reikna með, en þetta getur kostað um 20-25 þús kr. Þegar hún er svo búin að jafna sig á aðgerðinni þá mun ég venja hana smátt og smátt við að fara út. Ég mun örugglega fara með hana í bandi í fyrstu skiptin, áður en ég hleypi henni alveg út á eigin vegum.
Kisan hefur fengið nafnið Matthildur, sem passar henni einstaklega vel þar sem stafurinn M er á enninu hennar. Við vorum soldið lengi að komast að niðurstöðu með nafnið og fórum við aðeins fram og til baka með það, en erum mjög sáttar með lokaniðurstöðuna. Ef þið viljið fylgjast með okkur Matthildi þá sýni ég soldið af henni á instagramminu mínu.
Takk fyrir að lesa