Fyrir rúmum mánuði þá misstum við kisuna okkar, Karlottu, sem var ekki orðin 3ja ára og varð hún fyrir bíl rétt fyrir utan heimilið okkar. Stór karakter, mikill spjallari og alveg yndisleg kisa sem við munum alltaf sakna. Þetta var mjög mikill missir og mikil sorg. Eftir að ég varð ófrísk þá varði hún meiri tíma með mér og svaf alltaf sem næst bumbunni sem mér fannst svo fallegt. Okkar var farið að hlakka til að sjá hana og litlu stelpuna okkar saman.
Karlotta ♡
Við höfum alltaf viljað að börnin okkar myndu alast upp með dýrum enda hefur það ótrúlega góð áhrif á börnin og læra þau mikið af því. Við ákváðum því að grípa tækifærið og fá kettling inn á heimilið sem fyrst svo hún fengi tíma til að venjast okkur og heimilinu áður en barnið mætir í heiminn. Með því að taka að okkur kettling í stað fullorðins kött þá mun kötturinn taka vel í barnið því hann mun ekki þekkja neitt annað.
Um miðjan júní sóttum við litla kisu sem fæddist í bíl við sveitabæ. Það er ekki alveg vitað nákvæmlega hversu gömul hún er en áætlað að hún fæddist í byrjun maí. Svo hún var ekki meira en 6 vikna þegar við náðum í hana. Agalega lítil og sæt, svört með hvítar loppur. Gamla kisan okkar var rúmlega 6 vikna þegar við náðum í hana en þessi er mun minni svo við höldum frekar að hún hafi verið í kringum 4-5 vikna. Þetta er ansi ungt og yfirleitt eru kettlingar ekki settir á heimili fyrr en í kringum 8-12 vikna. En það er talað um að kettlingar verði hændari eigendum sínum ef þeir eru teknir inn snemma sem Karlotta var svo sannarlega, en það var svo sem ekki ástæðan fyrir að við tókum þær svona snemma, þær þurftu nauðsynlega heimili sem fyrst.
Þessi fallega snúlla fékk nafnið Tinna ♡
En þar sem hún er svona afskaplega ung þá fóru fyrstu dagarnir í það að kassavenja hana, koma blautmat og vatni ofan í hana og passa upp á að fara með hana á klósettið á 2ja tíma fresti sem hún hafði ekki frumkvæði af sjálf. Þetta er búið að ganga mjög vel og vill hún helst vera sem næst okkur, helst sofa ofan á andlitinu á okkur eða í hálsakoti.
Fyrsta daginn komum við henni fyrir inn á baði þar sem hún hafði allt sem hún þurfti svo sem mat, vatn og klósett. Síðan um kvöldið þegar hún var hætt að hvæsa á okkur þá vöfðum við henni í viskastykki til að taka hana með fram í sófa til að venjast okkur aðeins. Það gekk mjög vel og var hún farin að kúra hjá okkur seinna um kvöldið. Ótrúlega gott að fá smá líf inn á heimilið aftur og er ekki eins tómlegt hér núna enda er hún mjög fjörug og eins og raketta um alla íbúð.
Instagram -> ingajons