Ég hef oft fengið spurningar um hvernig í ósköpunum ég fari að því að vakna klukkan 5:20 á morgnanna og fara á æfingar. Persónulega finnst mér best að nýta tímann sem best á daginn svo ég nái að sinna öllu sem ég þarf að sinna.
Þar sem ég er í fullu starfi, fullu námi og vil ekki setja æfingar á hakann þá eru morgnarnir eini tíminn sem ég hef til að æfa. Ef ég á að velja á milli þess að sofa lengur og æfa ekkert á daginn eða vakna aðeins fyrr á morgnanna og ná að æfa þá verður seinni kosturinn klárlega alltaf fyrir valinu!
Það eru til ýmis góð ráð sem hjálpa þér að standa við það að mæta á morgunæfingar
- Farðu snemma að sofa: reyndu að fara að sofa á sama tíma á kvöldin því þá er þetta miklu auðveldara. Ég miða við að fara ekki að sofa seinna en kl 22 á kvöldin ef ég er að fara að vakna 5:30 fyrir morgunæfingu (sem er alla virka daga).
- Ekki ýta á snooze: sama hversu þreyttur þú ert, aldrei ýta á snooze! Drífðu þig fram úr um leið og klukkan hringir. Ein helstu mistökin er að ýta á snooze því það er alltaf erfiðara að vakna eftir það.
- Kaldur þvottapoki: mér finnst mjög gott að þvo mér í framan með köldum þvottapoka til að hressa mig aðeins upp áður en ég fer á æfingu
- Vertu búinn að taka til íþróttafötin: það sparar mikinn tíma að vera búinn að taka til öll íþróttaföt sem þú ætlar að nota um morguninn, þá þarft þú ekki að vera að leita að íþróttabolnum eða buxunum um morguninn þegar þú vaknar
- Vertu með morgunmatinn tilbúinn: ég borða alltaf eftir morgunæfinguna og er alltaf búin að útbúa overnight graut sem ég geymi í ísskápnum yfir nóttina. Þá er rosalega fljótlegt fyrir mig að grípa í morgunmatinn þegar ég er búin á æfingu. Ef þú vilt borða fyrir æfingu þá er einnig gott að vera búinn að taka til það sem þú ætlar að borða.
- Blandaðu pre workout drykkinn kvöldinu áður: ef þú hefur virkilega lítinn tíma á morgnanna og vilt nýta allar auka mínútur í að sofa þá er hægt að vera búinn að blanda pre workout drykkinn og geyma hann inni í ísskáp yfir nóttina
- Vertu með föt dagsins tilbúin: það getur verið gott að vera búinn að taka til þau föt sem þú ætlar að vera í í vinnunni eða skólanum deginum áður
- Vertu með nestið tilbúið: ef þú ætlar að taka nesti með í vinnuna/skólann þá er gott að vera búinn að græja það deginum áður
Mér finnst galdurinn í þessu öllu að vera nógu ákveðinn í að ætla að vakna. Það getur tekið smá tíma að venjast því að vakna snemma og æfa en ég lofa það venst á endanum!
Ef þú hefur engan tíma til að æfa yfir daginn þá mæli ég með því að prófa að vakna fyrr og æfa áður en þú ferð í vinnu/skóla!
Ef þið viljið fylgjast með mér og fá fleiri ráð (eða bara smá motivation), endilega fylgið mér á Instagram
Ása Hulda