Mjólkuróþol hjá Hlyni Atlasi

Okkur hefur lengi grunað að Hlynur Atlas gæti hugsanlega þolað illa mjólk. Við spurðum oft að því og fengum misvísandi svör um það. Hann fór í ofnæmispróf og er amk. ekki með mjólkurofnæmi, en óþol getur verið til staðar þrátt fyrir neikvætt ofnæmispróf. Okkur var oft sagt að við gætum alveg prófað, en það gæti verið að ekkert kæmi útúr því. Þannig tókum við því að það væri bara tilgangslaust eiginlega að prófa.

Þegar við fórum svo með Hlyn í 12 mánaða skoðun spurði ég hjúkrunarfræðinginn hvort það væri sniðugt, útaf bakflæðinu, að breyta í haframjólk því mér fannst hann alltaf vera að hósta og kyngja mikið alla nóttina. Síðan fórum við yfir heilsuna hans og hún sagði að við ættum klárlega að prófa að taka út allar mjólkurvörur, því það var svo margt sem benti til þess að hann væri með mjólkuróþol. Hann var oft full eftir að hafa borða gríska jógúrt, hann var með exem sem ég var búin að reyna að gera allt til að losna við, hann ældi oft uppí sig og kyngdi, hóstaði mikið og var ekkert rosa matglaður. Hann hafði t.d. lést um 100 gr. milli 10 og 12 mánaða skoðunarinnar, sem er svosem líka eðlilegt því hann er farinn að hreyfa sig mikið.

Við höfum því tekið út allar mjólkurvörur hjá honum og var það mun auðveldara en ég bjóst við. Á 4. degi var exemið farið, barnið elskar orðið að borða og drekkur meira vatn en hann gerði áður. Svefninn er bara svipaður og áður, vaknar 1-3 á næturna, en hann er hættur á bakflæðislyfjunum og þarf þau ekki lengur. Hann unir sér miklu betur, farinn að babla meira, leika sér meira, hnoðast meira í okkur og hlægja og vera rosalega fyndinn.

Núna erum við enn að læra á þennan mjólkurlausa lífstíl, en erum rosa heppin að það er svo margt vegan i boði sem hægt er að nota. Mér finnst frábært að skoða t.d. veganistur.is síðuna til að fá hugmyndir af mat sem hægt er að gera, þar sem þetta er smá út fyrir okkar þekkingarramma. Núna fáum við smá tækifæri til þess að læra á nýjan matarheim, sem er bara spennandi og gaman.

Takk fyrir lesninguna!

Freydís

Þér gæti einnig líkað við