Meðgöngu þunglyndi

Nú er ég búin að vera 3 vikur að tala mig til að pósta þessari færslu.
Veit ekki hversu oft ég hef breytt henni fram og til baka. Allavega, hér er hún.

Ég er gengin 23 vikur með barn númer 2.

Ég er alveg ótrúlega spennt fyrir komandi barni.
Ég er þakklát fyrir að eiga svona auðvelt með að verða ólétt, alls ekki sjálfgefið.
Ég er himinlifandi að ganga með heilbrigðan strák.
Ég er afskaplega hamingjusöm í daglegu lífi.

Ég er líka mjög sorgmædd.
Ég er hrikalega kvíðin og stressuð yfir öllu og engu.
Ég er mjög þung á mér andlega.
Ég þrái ekkert heitar en að vera „frjáls“.

Svona líður mér, ásamt fleirum tilfinningum sem koma upp.

Ég get ómögulega útskýrt nákvæmlega hvernig þetta er. Og efast um að það séu allir sem skilja mig, allavega ekki 100% sama hversu mikið ég reyni að útskýra fyrir fólki.
En ég er mjög dugleg að ræða þetta, eitthvað annað en ég gerði á síðustu meðgöngu.

Ég vinn á veitingastað sem þjónn, ég er menntuð sem slík og hef gaman af.
Nú undanfarið er ég kvíðin að mæta í vinnuna, ég er kvíðin því að líða illa líkamlega og geta ekki sinnt starfi mínu nægilega.
Líkamleg geta mín er orðin mjög lítil, þrátt fyrir að vera komin „stutt“. Mér finnst alls ekki kominn tími á að ég eigi að vera orðin svona þreytt líkamlega.

Dags daglega er mikið spurt um meðgönguna, hvernig gengur ? Hvernig líður þér ? Ég á mjög erfitt með að svara þessu, því jú, mér líður bara alls ekki vel.
Þegar fólk er að spyrja, hvað ég sé komin langt, spyrja til um kyn, fyrsta barn, og þessar tíbísku spurninga þá verð ég pirruð innan með mér. Ég pirra mig á því að fólk er að tala við mig sem ólétta konu. Eins og það sé það eina sem hægt er að tala um því ég er ófrísk.

Ég er komin með ansi stóra kúlu, og ég skammast mín fyrir það. Ég skammast mín fyrir það að segja að ég sé bara rúmlega hálfnuð, að ég eigi enn 4 mánuði eftir.
Ég er ekki búin að bæta á mig einhverjum kílóum, að minnsta kosti í síðustu skoðun var ekki komið eitt auka kíló, svo ég veit að ég er ekki að bæta á mig, þetta er bara kúlan mín sem ég fæ og ég get ekkert að því gert.

Ég veit það eru fleiri konur sem hafa verið og eru í mínum sporum, margar hafa sent mér skilaboð og sagt mér frá sinni reynslu. Og er þetta mun algengara en ég gerði mér grein fyrir í upphafi. En auðvitað, ef ég er að upplifa einhverjar tilfinningar þá eru nokkuð góðar líkur á að það eru fleiri sem hafa gert það.

Mín meðhöndlun er að taka einn dag í einu. Reyna að gera allt til að halda verkjunum í bakinu í skefjum og mældi læknirinn með því að byrja í meðgöngusundi. Svo mun ég fara á námskeið sem er fyrir konur sem upplifa vanlíðan á meðgöngu, og einnig mun ég hitta lækni og ljósuna mína reglulega.

Ég er ánægð að í þetta skipti hafði ég vit fyrir því að ræða þetta. Ræða tilfinningarnar mínar. Því ég get ómögulega stjórnað því hvernig mér líður.
Að sjálfsögðu er þetta hormóna tengt, en það skiptir ekki máli, ég næ ekki að tala mig til, sama hvað ég reyni.
En læknirinn minn sagði mér að konur hafa náð bata á meðan meðgangan er enn í gangi, og er ég bjartsýn á komandi tíma.
Ég þrái ekkert meira en að geta notið þess að vera ólétt, og verið með þennan óléttu ljóma eins og sagt er. Eins og staðan er núna er ég bara með óléttu myglu! – djók, samt ekki…

Ef þú ert að upplifa vanlíðan á meðgöngu, ekki hika við að ræða það við ljósmóðurina þína, ekki bíða eftir næsta bókaða tíma. Hringdu strax.

Aníta Rún
instagram: anitarg

Þér gæti einnig líkað við