Meðganga á óvissutímum

Það er komið smá síðan ég skrifaði færslu hérna inn í sambandi við meðgönguna og fannst mér tími til að segja smá frá því hvernig síðustu mánuðir hafa gengið! Nú er ég komin rétt rúmlega 31 viku á leið og það styttist óðum í að litla prinsessan komi í heiminn.

Annar þriðjungur

Ég skrifaði síðast um hvernig fyrsti þriðjungurinn gekk hjá mér (sjá hér) en hann einkenndist af mikilli ógleði og þreytu. Þegar ég var komin um 13 vikur á leið þá fór mér að líða töluvert betur. Öll ógleði hvarf, ég fann að ég fékk orkuna mína aftur og allt gekk mjög vel. Ég fór að hreyfa mig daglega, borða hollan mat og líkaminn minn var virkilega góður. Ég slapp alveg við verki og grindargliðnun og er virkilega þakklát fyrir það. Það átti svo sannarlega við hjá mér að annar þriðjungurinn væri besti tíminn í meðgöngunni því þá gjörsamlega blómstraði ég og mér leið yndislega! Það skrítna við þennan tíma var hins vegar ástandið í samfélaginu. Fljótlega eftir að annar þriðjungurinn hófst fór Covid 19 að dreifast og óvissan sem fylgdi því öllu. Ég viðurkenni að ég var mjög smeyk og hef haldið mig mikið heima eftir að veiran fór að dreifast um samfélagið. Óvissan við það hvaða áhrif þessi veira hafði á óléttar konur og ófædd börn þeirra fékk mig til að vilja halda mig sem mest heima. Ég fór því að vinna og æfa heima og Hörður gerði það líka. Þetta hefur gengið virkilega vel hjá okkur og mér tókst að halda rútínunni þrátt fyrir miklar breytingar í lífinu. Ég hélt áfram að æfa daglega og borða hollan mat og leið virkilega vel! Það er þó búið að vera virkilega krefjandi að vera ófrísk á þessum tímum, sérstaklega ófrísk með fyrsta barnið okkar. Við vorum heppin að við rétt sluppum með að fara tvö saman í 20 vikna sónarinn en nokkrum dögum eftir að við fórum þá var bannað að taka maka með í sónarinn! Á þessum tímum mátti maki ekki koma með í læknatíma eða skoðanir hjá Mæðravernd. Að heyra svo þær fréttir að maki fái aðeins að vera viðstaddur eftir að fæðing hefst stressaði mig og mér fannst mjög óþægileg tilhugsun að þurfa mögulega að vera ein uppi á spítala í marga klukkutíma áður en Hörður fengi að koma og vera með. Ég reyndi að halda í jákvæðnina og vonaðist innilega til að hlutirnir yrðu breyttir þegar kæmi að 18 júlí.

Ég tók ákvörðun að kíkja til Gunnars Jónatanssonar og fá hann til að taka bumbumyndir af mér sem ég er virkilega ánægð með, mæli 100% með honum! (Ljósmyndir og myndbönd). Við ákváðum að taka myndir af mér á tveggja vikna fresti og í lokin mun hann púsla saman einni mynd úr hverri töku, það verður gaman að sjá hvað líkaminn er búinn að breytast mikið með hverri viku sem líður! Allar myndirnar í þessari færslu eru frá honum.

Þriðji og síðasti þriðjungurinn

Við tók síðasti þriðjungurinn og það er eins og líkaminn hafi vitað af því að hann væri að hefjast! Ég fór fljótlega að finna aftur fyrir ógleði nánast daglega sem minnti mjög á fyrsta þriðjunginn. Þreytan byrjaði aftur að hellast yfir mig og ég fór allt í einu að finna fyrir þrýstingi rétt fyrir neðan bumbuna á 28 viku. Eins og margir gera þá henti ég mér strax á Google til að athuga hvað þetta gæti verið, einnig ákvað ég að spyrja inná Instagram hjá mér hvort það væru fleiri mæður sem könnuðust við sambærilegan þrýsting og líða eins og þær væru með bolta á milli fótanna. Ég fékk virkilega mörg svör og flestar bentu mér á að litla væri líklega búin að skorða sig. Ég fékk símatíma hjá ljósmóður sem sagði mér að hafa engar áhyggjur, það væri eðlilegt að finna fyrir þrýstingi annað slagið þar sem barnið væri að stækka og tæki meira pláss en áður. Ég hitti ekki ljósmóður fyrr en í 30 viku og athugaði hún þá hver staða barnsins væri. Kom þá ekki í ljós að litla prinsessan var búin að skorða sig og búin að koma sér vel fyrir! Ég viðurkenni að ég hef fundið fyrir miklum létti eftir að hún skorðaði sig, ég á auðveldara með að anda núna en áður og finnst eins og það sé aðeins meira pláss þarna inni! Hins vegar þarf ég stanslaust að pissa þar sem hún þrýstir svo á blöðruna mína og ég virðist hafa lítið sem ekkert pláss fyrir mat.
Þar sem ég er nú búin að vera með mikla ógleði nánast daglega og á erfitt með að borða stórar máltíðir þá hef ég verið að venja mig við að borða oftar yfir daginn og minni máltíðir. Ég reyni alltaf að velja hollan mat þar sem ég veit að það er það besta fyrir okkur mæðgur og það hefur gengið mjög vel. Ég er enn að hreyfa mig nánast daglega og líkaminn minn er virkilega góður, fyrir utan smá bakverki sem eru farnir að hrjá mig smá núna.

Alveg frá því á 16 viku hefur dúllan hreyft sig alveg virkilega mikið. Ég fann fyrstu fiðrildin snemma og ég hef fundið hreyfingar daglega síðan þá. Hún elskar að hreyfa sig og sparka og mér finnst oft svo óskiljanlegt hvað henni tekst að vera á mikilli hreyfingu með hausinn skorðaðann! Við hjónin höfum tekið eftir því að hún elskar að hlusta á pabba sinn tala eða syngja fyrir hana. Það er því orðið að rútínu hjá okkur að Hörður leggst á bumbuna og spjallar smá við hana á hverjum degi. Um leið og hann byrjar að tala þá fer hún að hreyfa sig og ýta í pabba sinn sem er svo yndislegt.

Við hjónin erum búin að undirbúa allt fyrir komu litlu prinsessunnar! Herbergið hennar er klárt og ég er ekki að grínast þegar ég segi að við værum tilbúin í það að hún kæmi í heiminn á morgun (þó ég vilji auðvitað að hún bíði aðeins með það haha!). Mér finnst mikill léttir að vera með allt tilbúið og þurfa ekki að vera í stressi seinna meir. Þeir sem þekkja mig vita að ég er rosalega skipulögð og á erfitt með að vera ekki löngu tilbúin með svona hluti. Við bíðum því spennt eftir komu dúllunnar okkar og ég er virkilega spennt að sjá hvort hún komi eftir 2 mánuði, hvort hún láti bíða eftir sér eða komi jafnvel aðeins fyrr! Samkvæmt nýjustu fréttum þá fær maki að koma með móður upp á fæðingardeild þegar hún fer þangað inn og ég er svo virkilega ánægð með þessar fréttir! Ég var orðin svo hrædd um það að þurfa að vera ein að bíða eftir fæðingunni sjálfri og það róar mig svo mikið að vita að Hörður má vera með mér í gegnum þetta allt saman!

Ef þið viljið fylgjast með hreiðurgerðinni, meðgöngunni eða þegar prinsessan er komin í heiminn þá er ég dugleg að deila frá því á Instagram

 

Þér gæti einnig líkað við