Á sunnudögum er hefð hjá mér að undirbúa allt sem hægt er að undirbúa fyrir næstu viku. Þessi dagur fer oftast í matarundirbúning (e. mealprep) en þá elda ég hádegismat sem ég borða næstu daga. Þar sem ég vinn alla virka daga frá 8-16 þá finnst mér best að vera búin að undirbúa allt nesti sem ég þarf fyrir vinnudaginn því þá á ég svo auðvelt með að halda mig í góðu mataræði. Ég skrifaði færslu fyrir nokkrum vikum um mataræðið þar sem ég sagði frá því hvað ég er að borða á hefðbundnum degi, þið getið skoðað hana hér.
Þar sem ég fæ reglulega spurningar um hvernig ég undirbý nestið mitt þá datt mér í hug að skrifa smá færslu um það. Margir halda að það sé tímafrekt og mikið vesen að útbúa matinn svona fyrir vikuna en mér finnst þetta spara mér tíma yfir vikuna. Það tekur mig vanalega um 35-40 mínútur að útbúa nestið mitt fyrir vikuna en inni í þeim tíma er tíminn sem kartöflurnar og kjúklingurinn er í ofninum. Þar sem ég þarf ekki að standa yfir eldavélinni á meðan þá fer ég oft að gera eitthvað annað meðan ég bíð eftir að maturinn verði tilbúinn.
Það eru nokkrir hlutir sem ég undirbý á sunnudeginum fyrir vinnuvikuna og það er hádegismatur fyrir fyrstu þrjá dagana og svo hafragrauturinn sem ég borða yfir vikuna.
Hádegismatur
Ég er oftast með sama grunninn í hádegismat en það eru 150/160 grömm af kjúkling og 100 grömm sætar kartöflur, síðan bæti ég við einhvers konar grænmeti og oft sósu líka. Mér finnst kjúklingurinn sem ég elda á sunnudeginum endast vel í ísskáp næstu þrjá dagana en maturinn sem ég borða á fimmtudegi og föstudegi finnst mér betra að geyma inni í frysti eða elda seinna í vikunni. Ég elda því oftast á sunnudeginum fyrir mánudag til miðvikudags og síðan hef ég eitthvað annað hina tvo dagana, eins og til dæmis lax, fiskirétt, ommelettu eða hakkrétt.
Mér finnst auðveldast að vigta sætu kartöflurnar og skera þær í teninga. Ég á mörg lítil eldföst mót og ég set hvern skammt í sér form, þá þarf ég ekki að vigta þetta eftir á. Á kartöflurnar spreyja ég Pam spreyi og set hvítlaukspipar og salt ofan á. Þær fara síðan inn í ofn á 180 gráður og blástur í hálftíma.
Kjúklinginn vigta ég í 150-160 grömm og skipti í 3 mismunandi form. Ég kaupi alltaf kjúklingalundir fyrir hádegismat því þá er auðvelt að finna til nokkrar lundir sem eru rétt magnið fyrir mig. Mér finnst skemmtilegast að hafa þetta smá fjölbreytt og nota mismunandi krydd á kjúklinginn. Einn skammturinn er þá oft með sítrónupipar og salti, annar með Eðal kjúklingakryddi frá Pottagöldrum og smá pipar og þriðji með hvítlaukspipar og salti. Kjúklinginn set ég inn í ofn þegar það er korter eftir af tímanum á kartöflunum, þá verður hann mjúkur og fullkominn.
Meðan kjúklingurinn og kartöflurnar eru í ofninum undirbý ég grænmetið. Ég er mjög hrifin af grænmetisblöndunum frá Gestus sem ég annað hvort steiki á pönnu með Pam spreyi eða gufusýð. Þegar allt er tilbúið set ég salsa sósu yfir og þá er allt klárt!
Hafragrautur
Ég borða mjög mikið af hafragraut þar sem ég gjörsamlega elska hann. Ég á mörg lítil box sem ég nota fyrir hafragrautinn sem ég tek með mér í vinnuna. Þá vigta ég hafra og prótein í box og í vinnunni bæti ég heitu vatni og rúsínum út í áður en ég fer á æfingu. Vanalega vigta ég í 5 box sem ég tek síðan upp í vinnu, þá er ég með tilbúið fyrir alla vinnudagana.
Mér finnst líka þægilegt að vigta hafra og prótein í box fyrir morgungrautana mína, þá þarf ég bara að bæta við vatni, hnetusmjöri og rúsínum kvöldið áður en ég borða grautinn.
Annað sem ég hef með mér í vinnuna
Þar sem ég borða vanalega á tveggja tíma fresti þá tek ég oftast með mér tvö millimál, hádegismat og pre workout grautinn sem ég borða í lok dags, þegar styttist í æfingu hjá mér.
Ég er alltaf með hnetusmjör í vinnunni og tek oftast epli með mér svo ég geti fengið mér epli og hnetusmjör í millimál. Ég tek síðan oft með mér gríska jógúrt, egg, Propud eða Hleðslu til að borða eftir hádegi. Ég er svo heppin að vinnan býður upp á fría ávexti, ef það væri ekki í boði tæki ég einnig með mér banana.
Ég mæli með að fjárfesta í nestistösku sem heldur matnum köldum. Ég keypti þessa sem er á myndinni hér fyrir neðan á Ebay fyrir nokkrum árum og hún kostaði innan við 500 kr.
Það er hægt að leita að cooler bag á Ebay og þá kemur fullt af sniðugum nestistöskum upp!
Ég viðurkenni að ég er alveg fáránlega skipulögð og vanaföst og ég hef gert þetta næstum hvern einasta sunnudag í nokkur ár. Þetta hentar mér mjög vel og mér finnst þægilegt að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hvað ég eigi að hafa með mér í vinnuna til að borða.
Ef þið viljið fylgjast meira með mér þá mæli ég með að fylgja mér á Instagram, ég sýni oft frá matarundirbúning og fleiru þar 🙂
Þangað til næst,
Ása Hulda