Ég elska einfalda rétti með fáum innihaldsefnum. Fyrir stuttu setti ég inn uppskrift af fiskrétti sem vakti alveg mikla lukku enda einnig mjög góður og einfaldur réttur. Getið séð færsluna HÉR.
Þessi réttur sem ég ætla að deila með ykkur er mjög matarmikill svo það þarf alls ekki mikið.
Þessi uppskrift er fyrir 3-4 manns
Það sem þarf er:
• 800 gr fiskur – Notaði löngu í þetta skiptið
• Rótargrænmeti – Notaði 4-6 litlar kartöflur, hálfa rófu, 3 stórar gulrætur.
• 1 askja kirsuberjatómatar
• Rifinn ostur
• Salt & pipar
Sósan
• 1 dós Kókosmjólk
• Curry Paste eftir smekk. Mæli með 1/2 – 1 krukku.
Inn í ofn á 180° í 25-30 mínútur.
Steypujárnspannan sem ég notaði má fara inn í ofn, annars er notast við eldfast mót.
Búin að skera niður löngu í litla bita og rótargrænmetið.
Byrja á því að raða fisknum í steypujárnspönnu (hægt að nota eldfast mót í staðin) ásamt rótargrænmetinu.
Blanda saman einni dós af kókosmjólk og curry paste eftir smekk. Ég setti hálfa krukku af curry paste, það gefur alveg smá bragð en alls ekki sterkt. Bætti síðan restinni af krukkunni út í, beint á diskinn, þegar maturinn var tilbúinn til að fá aðeins meira bragð.
Hellið sósunni yfir
Toppað með kirsuberjatómötum og rifnum osti eftir smekk.
Borið fram með hrísgrjónum og salati.
Njótið vel ♡
Inga ♡