Ævintýraferð til Spánar

Árið 2018 kom upp sú hugmynd hjá tengdaforeldrum mínum að þau myndu leigja stórt hús á Spáni og bjóða börnum þeirra fjórum, mökum og barnabörnum með. Það voru allir mjög spenntir fyrir þessari hugmynd þar sem þessi hópur hefur aldrei farið allur saman í frí til útlanda, sem er kannski ekki skrýtið þar sem við erum 21 í heildina.

Tengdaforeldrar mínir, Jói og Stína, rákust á þetta fallega hús rétt fyrir utan Girona á Spáni sem kallast Mas Grau.
Húsið var byggt á þrettándu öldinni og er rosalega sjarmerandi og fallegt. Í húsinu er að finna átta svefnherbergi og nokkrar stofur og var meira en nóg pláss fyrir allan þennan fjölda.

Ég og Hörður flugum með tengdó til Barcelona 13 júní en þar sem við fengum húsið ekki fyrr en á hádegi 14 júní þá gistum við eina nótt á hóteli í Girona.
Girona er mjög falleg borg og var mjög gaman að rölta þar um og skoða borgina. Við fórum og skoðuðum kirkjuna í Girona þar sem mikið af Game of thrones var tekið upp og var mjög gaman að sjá hvar Kings landing var að mestu staðsett!

Daginn eftir keyrðum við yfir til Lloret de Mar þar sem við hittum restina af hópnum.
Þar nutum við sólarinnar á ströndinni sem var virkilega falleg og hreinleg. Þetta var góð leið til að drepa tímann þangað til við fengum húsið afhent.

Eftir að hafa notið þess á ströndinni keyrðum við yfir í húsið okkar Mas Grau. Það var auðvelt að finna sér eitthvað að gera þar sem í húsinu var sundlaug, heitur pottur, sauna, billjard borð, borðtennisborð og svo margt fleira. Við vorum mikið í húsinu þar sem það var mjög notalegt að liggja úti við sundlaugina og sleikja sólina á daginn (enda rosalega gott veður næstum allan tímann). Eina sem ég get sett út á er að það voru rosalega margir geitungar út um allt þar!

Við vorum rosalega dugleg að elda bæði morgunmat og kvöldmat í húsinu og eyddum við því ekki miklum pening í mat þarna úti þar sem það var frekar ódýrt að versla í matinn.
Áður en við fórum út var búið að útbúa skipulag þar sem hver fjölskylda átti að sjá um að elda kvöldmat fyrir hópinn ákveðna daga. Þetta skipulag gekk rosalega vel og var gaman að sjá hversu fjölbreyttur og góður maturinn var.

Hjólreiðar og útihlaup

Ég og Hörður ákváðum að leigja okkur racer hjól í Girona sem við vorum með í þrjá daga. Þar sem ferðin til Spánar var svo stuttu áður en ég tek þátt í Wow cyclothon þá langaði mig mikið að leigja hjól úti og æfa mig smá. Við höfðum heyrt að Girona væri rosalega mikil hjólaborg en við sáum það strax á fyrsta degi að það er rosalega mikið af hjólafólki á öllum aldri að hjóla þarna.

Hörður átti að sjá um að leigja hjólin en hann pantaði þau á þessari síðu. Hann fann fín hjól á síðunni sem kallaðist Teammachine SLR03 ONE og átti hvert hjól að kosta 40€ fyrsta daginn og 20€ hvern dag eftir það. Herði tókst hins vegar að velja fyrir mistök dýrustu og flottustu hjólin á síðunni en þau hétu nánast það sama og hitt hjólið (Teammachine SLR02 ONE). Þessi hjól voru á 70€ hvort fyrsta daginn og 35€ hvern dag eftir það. Þetta endaði því á að vera töluvert dýrara en við ætluðum okkur í byrjun en ég viðurkenni að það var virkilega gaman að fá að prófa svona rosalega góð hjól (kostar um milljón að kaupa svona hjól hérna heima!).

Fyrsta daginn tókum við stuttan hring þar sem við hjóluðum frá hjólabúðinni og heim í húsið með smá aukakrók, þessi hringur var um 31 km. Það var rosalega gaman að hjóla þarna úti og Spánverjar eru mjög tillitsamir þegar kemur að hjólafólki og leið okkur rosalega vel og öruggum þarna.

Við fundum það að það er töluvert erfiðara að hjóla í 30 stiga hita heldur en í hitanum sem er á Íslandi og sáum við að við þyrftum að vakna mjög snemma á morgnanna ef við ætluðum að hjóla. Daginn eftir ákváðum við að vakna klukkan átta og taka aðeins lengri hjólaleið. Við hjóluðum þá 43 km í rosalega miklum brekkum í fallegri sveitinni. Seinheppna Ása náði auðvitað að detta á 0 km hraða og togna í puttanum en ég lét það ekki stoppa mig í hjólreiðunum.

Þriðji hjóladagurinn var skemmtilegastur enda var það lengsti hjólatúrinn og fjölbreyttastur. Við vöknuðum aftur klukkan átta og tókum 46 km hjólatúr í miklum brekkum og fallegu landslagi. Við stoppuðum í litlum bæ sem heitir Salt og fengum okkur kaffibolla þegar við vorum hálfnuð og það var alveg æðisleg upplifun. Það var erfitt að skila hjólunum eftir þriggja daga hjólreiðar en þar sem það kostaði okkur um 50.000 kr. að leigja hjólin í þrjá daga þá létum við það nægja.

Þar sem ég er frekar ofvirk manneskja þá þurfti ég mína útrás þá daga sem við vorum ekki með hjólin. Ég ákvað að vakna klukkan átta hina morgnanna sem við vorum úti og fara út að skokka! Ég er rosalega lítill hlaupari en ég náði svo sannarlega að koma sjálfri mér á óvart og skokkaði í fyrsta skipti 10 km án þess að stoppa þarna úti.

Ég væri svo sannarlega til í að leigja aftur hús, mögulega í Ítalíu, Grikklandi eða öðru fallegu landi. Þetta er svo allt öðruvísi upplifun en að fara öll saman og gista í sitthvoru herberginu á hóteli. Það var svo töluvert auðveldara að halda hópnum saman þegar við gistum öll saman í einu húsi og upplifunin var mun skemmtilegri.

Segjum þetta gott í bili,
Ása Hulda

 

Þér gæti einnig líkað við