Æfingabúðir á Mallorca

Um daginn sagði ég ykkur frá æfingabúðum sem ég pantaði mér á sérstöku covid tilboði hjá fyrirtæki sem heitir Ultimate fitness holiday. HÉR getið þið lesið færsluna. Ég pantaði ferðina upphaflega til Balí, en vegna ástandsins í heiminum þá ákvað ég að breyta staðsetningunni í Mallorca. Ég verð bara að fara til Balí seinna. 

Ef ástand leyfir þá fer ég út þann 5.júní og gisti eina nótt í höfuðborg eyjunnar, Palma. Þann 6.júní fer ég svo yfir til Port de Pollenca þar sem æfingarbúðirnar eru staðsettar og er meet and greet haldið um kvöldmatarleytið. Ég valdi að gista í villunni þar sem búðirnar sjálfar eru og mun þá þurfa að deila herbergi með einhverjum, sem ég fæ að vita meira um þegar nær dregur. Það er einnig hægt að kaupa bara æfingarbúðirnar og sleppa gistingunni, og panta þá sér gistingu sjálfur á hóteli nálægt. En mig langar í “the full experience” svo ég ákvað að taka allan pakkann. Ég mun dvelja þarna í tvær vikur og að þeim loknum hef ég einn auka dag sem ég get leikið mér eitthvað áður en ég fer heim. 

Dagskráin í æfingabúðunum er nokkurn veginn svona: 

  • vaknað um sjö og farið í jóga við sólarupprás 
  • ávaxtastund
  • High intensity training tími 
  • morgunmatur
  • paddle boarding kennsla 
  • klukkutími frí
  • hádegisverðarhlaðborð
  • æfing, mismunandi eftir dögum
  • fjallganga, skokk eða blak á ströndinni
  • kvöldin og helgarnar eru svo frjáls tími 

Ég er ekki ennþá búin að þurfa að fara í eina einustu covid skimun, en þessi ferð þýðir það að ég mun þurfa að fara í að minnsta kosti þrjár skimanir og fimm daga sóttkví við heimkomu. En það er fórnarkostnaður sem ég er tilbúin að splæsa í til þess að komast í þessa ferð. 

Mig langar samt að taka það fram að ég er ekkert sérstaklega að mæla með því að fólk sé að ferðast til útlanda á þessum tímum. Ég keypti mér þrjár tegundir af tryggingum með ferðinni, þannig að ég get alltaf breytt ferðinni, fært hana eða hætt við án þess að tapa krónu. Ég er ferðasjúk og þurfti að hætta við tvær utanlandsferðir í fyrra vegna veirunnar, og ég er bara ekki tilbúin til að hætta við eina enn. En ég keypti þessa ferð í byrjun síðasta árs og ætla að leyfa mér að fara. 

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við