Þrír dagar í London

Ég skrapp til London í febrúar í þrjá daga til að hitta dóttur mína. Hún er í námi á Ítalíu og var akkúrat á þessum tíma að fagna próflokum, svo okkur langaði til að hittast aðeins áður en ný önn byrjaði í skólanum hjá henni. Þar sem ég er nú þegar búin að heimsækja hana þrisvar sinnum, og fjórða heimsóknin á dagskrá í maí, þá datt okkur í hug að það væri sniðugt að hittast á miðri leið. Við fengum báðar flug á góðu verði til London, svo við ákváðum að það yrði áfangastaðurinn að þessu sinni. Það er ekki auðvelt að finna góða gistingu á hagstæðu verði í London, en eftir mikla leit fann ég ágætis lítið og krúttlegt hótel við hliðina á Hyde Park á innan við 40.000 kr fyrir þrjár nætur. Þaðan var um 10 mínútna ganga á Oxford street. Hótelið heitir Athena Hotel og ég mæli alveg klárlega með því. Herbergið var frekar lítið, en mjög þrifalegt, og staðsetningin frábær. 

Við höfum báðar farið tvisvar sinnum áður til London, svo við vorum ekki að fara á alla þessa týpísku túrista staði, því við erum búnar að því. Það sem okkur langaði gera í þessari ferð, fyrir utan bara að hittast, eyða tíma saman og borða góðan mat, var að skoða Notting Hill, versla á Oxford og Regent street, skoða Little Venice, Camden market, Covent garden, Soho og Chinatown. Við náðum að gera allt sem var á dagskránni okkar, en þetta var rosalega mikið labb og við vorum svo gjörsamlega búnar í fótunum eftir ferðina.

Ég kom degi á undan til London, lagði af stað heiman frá mér fáránlega snemma og var lent á Stansted flugvelli um 09:30. Þá tóku við þrjár lestar til að koma mér á hótelið. En þeir sem hafa farið til London vita að lestarkerfið þar er svo einfalt, að það er án gríns ekkert að óttast. Það þarf ekki einu sinni lengur að kaupa miða í neðanjarðar lestarnar, þú notar bara snertilausar greiðslur við inn- og útgangs hliðin. Þetta gæti ekki verið einfaldara og þægilegra. Daginn sem ég var ein, fór ég að skoða Tower Bridge, St. Dunstan in the east, fór í Primark og endaði daginn á því að kaupa mér Mcdonald’s og fara með uppá hótel. Ég borðaði svo matinn yfir “Perfect match” á Netflix og steinrotaðist fyrir kl 20:00. Svo sem ekki skrítið þar sem ég var búin að vera vakandi síðan kl 02:30 um nóttina og búin að labba einhverja 14 km. Ég vaknaði svo súper fersk daginn eftir og fór út að hlaupa í Hyde Park áður en Elín mín mætti á svæðið. 

Við mæðgur áttum svo tvo frábæra daga saman þar sem við gerðum allt sem ég nefndi hér að ofan. Við pöntuðum borð á veitingastöðum frekar tímanlega fyrir ferðina og fyrsta kvöldið fórum við á ítalskan stað sem heitir Ave Mario. Mjög flottur og vinsæll staður. Næsta morgun fórum við svo í brunch á stað sem heitir Bondi green. Ég held að það hafi verið besti maturinn sem ég borðaði í allri ferðinni! Um kvöldið fórum við svo á kínverskan stað sem heitir Din Tai Fung og pöntuðum þar fullt af allskonar litlum réttum. Þetta var ótrúlega flottur staður og maturinn mjög góður. Við fengum okkur líka Chipotle í hádegismat á fyrri deginum og það klikkar náttúrulega aldrei. 

Það var svo erfitt að kveðja þegar ferðinni lauk, enda erum við ekki að fara að hittast aftur fyrr en í maí. En þá fer ég til Mílanó og við kíkjum á Maneskin tónleika og verðum á Lake Como yfir helgi. Hlakka svo til! 

Takk fyrir að lesa 

 

Þér gæti einnig líkað við