Loksins kennari!

Ég var búin að bíða ansi lengi eftir því að 19. júní myndi renna upp og þar með útskriftardagurinn minn. Spenningurinn fyrir því að klára námið mitt var ekkert lítill!

Ég ætlaði mér aldrei að verða kennari, en facebook minnir mig á það á hverju ári þegar minning frá því ég var í 10. bekk kemur upp, þar sem ég tilkynni að ég ætla sko ekki að verða kennari en hlutirnir æxluðust öðruvísi og nokkrum árum seinna er ég komin með útskriftarskírteini og leyfisbréf í hendurnar. 

Þessi tími sem ég var í háskólanum var alls ekkert auðveldur. Margar áskoranir bönkuðu á dyrnar hjá mér sem ég tæklaði eftir bestu getu. Það kom alveg nokkrum sinnum fyrir að mig langaði bara til að hætta, þetta væri bara alls ekki fyrir mig. En í dag er ég mjög ánægð með að hafa ekki gefist upp heldur haldið áfram því að kenna er eitt það skemmtilegasta sem ég geri!

Mér finnst þetta vera nokkuð stór áfangi og langaði því að halda aðeins upp á hann. Ég ákvað að vera ekki með neitt stóra veislu heldur bjóða bara nánustu vinum og fjölskyldu heim helgina eftir útskrift. Þar sem ég ætlaði bara að vera með veisluna heima ákvað ég að skipta henni upp í tvennt, bjóða vinunum í smá partý á föstudagskvöldinu og fjölskyldunni í kaffi á sunnudeginum. 

Ég bauð vinunum upp á smárétti og fjölskyldan fékk svo kökukaffi á sunnudeginum en Atli útbjó allar veitingarnar fyrir mig og voru þær virkilega góðar, svona eins og reyndar allt annað sem hann matreiðir!

Ég er ótrúlega þakklát fyrir fólkið í kringum mig en þau eiga stóran þátt í því að ég kláraði námið! Þau voru til staðar og hvöttu mig áfram þegar ég var alveg að bugast og fögnuðu með mér þegar gekk vel!

Þér gæti einnig líkað við