Liggur þér lífið á?

Í sumar vorum við fjölskyldan svolítið í útilegum og ferðum um landið. Í ágúst vorum við að ferðast tvær helgar í röð, sem er svosem ekki frásögu færandi, en í bæði skiptin vorum við að keyra norður og í bæði skiptin hélt ég að við myndum lenda í bílslysi. Í fyrra skiptið er það bíll sem er að keyra úr gagnstæðri átt og er semsagt að taka fram úr. Það var rosalega mikil umferð enda há sumar og allir í útilegum og að ferðast. Bíllinn nálgast okkur og nálgast, hann ÆTLAÐI bara að ná fram úr öllum bílunum. Ég öskraði á Óla því bíllinn nálgaðist hratt og það leit út fyrir það að hann myndi bara bomba framaná okkur. Við með fellihýsi í eftirdragi, Óli neglir niður og heldur flautunni niðri eins og hinir bílarnir sem komu úr hinni áttinni. Ég lokaði bara augunum, hélt að við værum öll að fara lenda í hræðilegu bílslysi, Ágústa Erla aftur í og fullt af bílum í kringum okkur. Bíllinn rétt slapp á milli okkar og fremsta bílsins úr gagnstæðu röðinni. Ég hélt að hjartað myndi stoppa, þetta var hræðilegt.

Hvað fer í gegnum höfuðið á svona fólki? Liggur þeim svona mikið á að þau eru til í að leggja líf annarra í hættu? Allir sem ég þekki eru með einhverja svona sögu að segja.

Helgina eftir þetta gerðist svipað nema þá voru það tveir bílar að elta hvorn annan, einhverjir „töffarar“. Fremri bíllinn tekur fram úr okkur og tveimur öðrum bílum, rétt svo nær að sveigja inn á sinn helming í tæka tíð. Svo kemur seinni bíllinn, tekur fram úr bílnum fyrir aftan okkur og er svo kominn við hliðiná okkur þegar bíllinn úr gagnstæðri átt nálgast óðfluga. Óli neglir niður með fellihýsið í eftirdragi og bíllinn RÉTT svo náði að troða sér milli okkar og bílsins sem var fyrir framan okkur. Allir flautandi, skíthræddir og reiðir. Hann lærði svo sem ekki mikið á þessu og hélt áfram þessum glæfraakstri þangað til að hann náði í skottið á vini sínum sem ók eins glæfralega. Maður sá veginn framundan mjög vel og hvernig þessir bílar voru að aka. Ég hringdi bara á lögregluna og sagði þeim að það væri stórhættulegir ökumenn að nálgast Blönduós og það mætti hafa auga með þeim.

Það fyndna við þetta, ef það er hægt að segja það, að þá eru þessir bílar ekki að græða mikinn tíma á þessu. Ég sé það sérstaklega þegar ég er að keyra á milli Hveragerðis og Reykjavíkur, allir þeir bílar sem taka framúr mér eru við hringtorgið þegar ég kem þangað.

Tilgangurinn með þessari færslu er að fá fólk aðeins til að hugsa um þetta. Sérstaklega þá sem eru mikið í því að taka fram úr og keyra hraðar en löglegur hámarkshraði er. Þarftu að keyra svona hratt? Þarftu að vera kominn á leiðarenda 19:40 í staðinn fyrir 19:45? Ertu að taka óþarfa sénsa?

Núna er veturinn að koma og getur hálkan og snjórinn verið mjög hættulegur. Maður hefur oft lent í þessum aðstæðum þar sem að það munar svo litlu að stórslys verði. Keyrið varlega elsku vinir ♡

xo
Guðrún Birna

Þér gæti einnig líkað við