Lífshlaupið er haldið árlega og er í raun keppni í hreyfingu. Það snýst aðallega um að hvetja fólk til að hreyfa sig að lágmarki 30 mínútur á dag, sem er akkúrat viðmið embætti landlæknis um lágmarks hreyfingu á dag hjá fullorðnu fólki.
Það eru nokkrar keppnir í boði:
- Vinnustaðakeppni, 3.-23.febrúar
- Framhaldskólakeppni, 3.-16.febrúar
- Grunnskólakeppni, 3.-16.febrúar
- Einstaklingskeppni, allt árið
Ég hef nokkrum sinnum tekið þátt í Vinnustaðakepnninni og er núna þriðja árið í röð að taka þátt með vinnustaðnum mínum Skaginn3X. Við lentum í 48.sæti í fyrra í flokknum 150-399 starfsmenn og ætlum að gera enn betur núna. Það verður líka smá keppni innbyrðis hjá okkur á milli liða og verðlaun í boði, sem gerir þetta ennþá skemmtilegra.
Ég er alltaf mjög dugleg að hreyfa mig, reyni að gera eitthvað á hverjum degi alla jafna. En þegar ég er að taka þátt í Lífshlaupinu þá fæ ég smá útrás fyrir keppnisskapið mitt og gef aðeins meira í. Fer í extra langa göngutúra til dæmis og geri teygju- og jógaæfingar heima. Allt til þess að ná inn fleiri mínútum á dag. Ég reyni nú samt sem áður að keyra mig ekki alveg gjörsamlega út. En þetta eru nú bara þrjár vikur og hingað til hef ég ekki þurft að hvíla mig neitt sérstaklega að lokinni þátttöku.
Mér finnst rosalega gaman og hvetjandi að taka þátt í þessari keppni. Í fyrra byrjaði ég einmitt að fara í göngutúra til þess að safna mínútum í keppninni og hef ég haldið þeim áfram alveg síðan. Ég hafði aldrei haft neinn áhuga á að fara í göngutúra fram að því, en uppgötvaði á þessum tíma hvað það er notalegt að fara út að labba. Hvet ykkur til að lesa færsluna mína um gagnsemi göngutúra HÉR.
Endilega kynnið ykkur Lífshlaupið og hvetjið skólann ykkar eða vinnustaðinn til að taka þátt. Það er ekki of seint að skrá sig þó keppnin hafi byrjað 3.febrúar. Það er alltaf hægt að skrá hreyfingu fimm daga aftur í tímann.
Takk fyrir að lesa