Lífið með PCOS og endómetríósu

Eins og ég hef komið inná áður þá er ég með tvo króníska sjúkdóma, PCOS og endómetríósu. Þessir sjúkdómar hafa haft virkilega mikil áhrif á lífið mitt en það er ýmislegt sem ég hef lært sem hjálpar mér að lifa með þeim.

PCOS í stuttu máli

PCOS er hormónatengdur sjúkdómur sem einkennist af því að konur mynda blöðrur á eggjastokknum í stað þess að fá egglos. Þessi sjúkdómur er talinn hrjá allt um 10% kvenna í heiminum. Það er þrennt sem einkennir PCOS en það eru óreglulegar blæðingar, hátt magn karlkyns hormóna og blöðrur á eggjastokkum. Ef kona er með 2 eða fleiri af þessum einkennum gæti hún greinst með PCOS. Einkenni eru mjög mismunandi milli einstaklinga og geta verið mis alvarleg (nánar hér).

Algeng einkenni sem fylgja PCOS eru óreglulegur tíðahringur, erfiðleikar við að verða ófrísk, mikill hárvöxtur, bólur, þyngdaraukningar, aukið insúlínónæmi og fleira.

Endómetríósa í stuttu máli

Endómetríósa er sjúkdómur sem hrjáir um 10% kvenna. Endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju á hinum ýmsu líffærum. Frumurnar bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans og valda þar bólgum. Kona sem er með endómetríósu getur því verið með innvortis blæðingar í hverjum mánuði á þeim stöðum sem frumurnar eru og geta myndast blöðrur á þessum stöðum. Samgróningar geta síðan myndast milli líffæra, innan kviðarholsins eða annarsstaðar í líkamanum (texti fenginn hjá Samtökum um endómetríósu).

Algeng einkenni endómetríósu eru mikill sársauki við blæðingar, óreglulegar og miklar blæðingar, verkir við egglos, hægðatregða, niðurgangur, uppblásinn magi, ógleði, ófrjósemi og síþreyta.

Einkennin mín

Það eru mörg einkenni sem ég tengi við þessa sjúkdóma og er misjafnt hvort ég finni fyrir þeim daglega, oft eða annað slagið. Eitt helsta einkennið sem ég finn fyrir eru rosalega sárir verkir við egglos og túrverkir. Eins og ég hef fjallað um áður þá glímdum við hjónin við ófrjósemi vegna þessara sjúkdóma og tók það okkur rúmlega 3 ár að takast það að verða ófrísk. Ég finn mjög oft til í maganum, fæ rosalega mikla verki og kviðurinn blæs mjög auðveldlega upp svo mig verkjar. Ógleði og þreyta er eitthvað sem ég finn fyrir nánast daglega.

Frá því ég var ung stelpa hef ég fundið fyrir mikilli ógleði og magaverkjum nánast daglega. Ég fór í óteljandi læknisheimsóknir og rannsóknir en aldrei fannst hvað var að hjá mér. Það var ekki fyrr en ég fékk greininguna á endómetríósunni og fór að googla að ég áttaði mig á ástæðunni fyrir þessu öllu. Ég komst einnig að því fyrir nokkrum árum að ég þoli illa laktósa og ýtir það undir verkina hjá mér ef ég fæ mér mat sem inniheldur laktósa.

Eitt af því sem hefur haft mikil áhrif á mig er hvað ég er allaf rosalega þreytt! Það skiptir engu máli hversu vel ég hef sofið, ég er alltaf þreytt. Ég reyni þó eins og ég get að halda svefninum góðum og fara snemma að sofa.

Blæðingar eru alls ekki í uppáhaldi hjá mér. Ég hef alltaf fengið mjög mikla túrverki og þegar ég var yngri endaði ég yfirleitt á því að fara veik heim úr skólanum vegna verkja. Ég hef reynt nánast allar verkjatöflur og þær virka vanalega ekki við verkjunum. Það besta sem ég veit er að vera með heitan bakstur, fara í heitt bað og reyna að sofa eins og ég get.

Ég fékk greiningu á PCOS þegar ég var 16 ára en fékk ekki greiningu á endómetríósu fyrr en tíu árum seinna þegar ég var loksins send í kviðarholsspeglun.

Mín leið til að takast á við aukaverkanirnar

Það getur verið þreytandi að finna stanslaust fyrir einhverjum verkjum og einkennum og ég er búin að prófa allskonar til að reyna að minnka þau.

Það sem mér finnst hjálpa mér helst er eftirfarandi:

1. Dagleg hreyfing: Þegar ég var yngri var ég ekki hrifin af líkamsrækt eða hreyfingu almennt. Það var ekki fyrr en á unglingsárum sem ég áttaði mig á því hvað hreyfing lætur mér líða miklu betur bæði andlega og líkamlega. Mér finnst mjög gott að hreyfa mig þegar ég fæ verki því það er eins og hreyfing slökkvi á verkjunum í smá stund hjá mér.

2. Góður svefn: Ég hef vanið mig á það að fara snemma að sofa og reyna að ná eins góðum svefni og mögulegt er. Ég finn samt fyrir þreytu á daginn, sérstaklega seinni partinn en ég finn að það skiptir miklu máli ef ég fer snemma að sofa.

3. Kolvetni: Ég hef lesið mér mikið til um það að margar konur sem eru með PCOS þoli illa kolvetni í miklu magni (sérstaklega einföld kolvetni). Ég ákvað því að prófa hvort það ætti við um mig og ég fann það út að það hentar mér best að reyna að halda þeimí lágmarki. Ég hef tekið eftir því að magaverkir og uppþemba minnkar töluvert ef ég held einföldum kolvetnum í lágmarki. Ég reyni að miða við að kolvetni séu ekki meira en 30% af macros hjá mér en vil þó ekki fara út í neinar öfgar.

Dæmi um einföld og flókin kolvetni

Einföld kolvetni Flókin kolvetni
Pasta
Hrísgrjón
Kartöflur
Hvítt brauð
Kökur
Sætindi
Ávaxtasafi
Mjólkurvörur með viðbættum sykri
Brún hrísgrjón
Hafrar
Kínóa
Epli, perur, sveskjur, jarðaber
Tómatur, gulrætur, brokkolí, kartöflur
Baunir
Bókhveiti

4. Halda laktósa í lágmarki: Þar sem laktósinn hefur ekki góð áhrif á mig hef ég reynt að halda því í algjöru lágmarki að fá mér mjólkurvörur sem innihalda hann. Ég vel lang oftast laktósafríar vörur en ef það er ekki í boði hef ég verið að taka laktasa töflur með matnum.

5. Heitur bakstur og heitt bað þegar túrverkir eru verstir: Þetta er algjört must og gerir verkina örlítið bærilegri

6. Borða reglulega: Ég passa mig að borða alltaf reglulega yfir daginn þó mér sé óglatt, annars verður ógleðin enn verri. Ég er vanalega að borða á ca tveggja til þriggja tíma fresti og finnst það henta vel.

7. Taka góðgerla fyrir meltinguna: Ég hef verið að taka gula Bio Kult í meira en ár og finnst það hjálpa meltingunni helling

Vonandi hjálpar þetta einhverjum!
Ef þú kannast við einhver af þessum einkennum þá mæli ég með að heyra í kvensjúdómalækni.

Ég er tala mjög opinskátt um sjúkdómana á Instagram síðunni minni, mæli með að ýta á follow ef þið hafið áhuga. Einnig hef skrifað nokkrar færslur um sjúkdómana mína (,,Á ekki að fara að koma með eitt lítið kríli?“, Munum við einhvern tímann fá að eignast barn? og Tilheyrir þú þessum tíu prósentum?)

Þér gæti einnig líkað við