Það er stundum erfitt að sitja á skoðunum sínum þegar háværar umræður eru í þjóðfélaginu, eins og hafa verið núna undanfarið varðandi lausagöngu katta. En þessi umræða fór á fullt eftir að tilkynning kom frá Akureyrarbæ um að lausaganga katta yrði bönnum í bænum árið 2023. Hins vegar hef ég haldið mig frá þessari umræðu nánast alfarið, vegna þess að fólk er svo rosalega harðort í garð katta og eigenda þeirra, það skín í gegn svo mikið hatur gagnvart köttum í umræðunni, að ég bara hreinlega veit ekki hvernig ég á að koma frá mér orði.
Best að ég byrji á að taka það fram að ég á ketti, og hef átt lengi. Ég átti fyrst kött þegar ég var um tíu ára gömul. Ég elska alla ketti, mér finnst þeir sætir, skemmtilegir, fyndnir og klárir. Kettirnir mínir fara út, bæði með mér og án mín. Misjafnlega oft og misjafnlega lengi. Ég veit ekkert alltaf hvað þeir eru að gera þegar þeir eru úti. En þeir elska að vera úti. Einu sinni reyndi ég að halda kettinum mínum inni, þar sem ég bjó við þannig aðstæður að það var erfitt að hleypa honum út. En það gekk ekki, það var bara ekki hægt að halda honum inni. Kettir eru nefnilega misjafnir, suma ketti er bara einfaldlega ekki hægt að hafa sem inniketti. Á meðan aðrir kettir kannski elska bara að vera inni og vilja ekkert fara út. Eins og aðrar skepnur, þá eru kettir ólíkir og með ólíka persónuleika.
Fólk sem er með því að banna lausagöngu katta talar helst um þrjú atriði. Númer eitt: að það séu alltaf að koma kettir inn hjá þeim, Númer tvö: að þeir séu að skíta í garðinn þeirra og sandkassa og Númer þrjú: að það séu katta slagsmál sem þau heyra í fyrir utan hjá sér. Við öllu þessu eru til mjög einfaldar lausnir. Númer eitt: Ekki skilja eftir galopna glugga þegar þú ferð út úr húsi. Það gerir hvort sem er þjófum auðveldara fyrir að brjótast inn hjá þér, svo það er nú bara góð regla sem er gott að venja sig á. Númer tvö: Það er langt síðan farið var að byggja alltaf lok yfir sandkassa til að fyrirbyggja það að kettir og fuglar væru að skíta ofan í þá, svo það vandamál ætti nú ekki að vera til staðar lengur. Og svo spyr ég mig nú bara að því hvaða máli það skipti þó að kettir skíti í moldina heima hjá þér? Kettir gera þarfir sínar á stöðum þar sem þeir geta mokað holu og svo moka þeir aftur yfir á eftir sér. Kettir eru nefnilega mjög snyrtilegir, og skilja ekki skítinn eftir sig hvar sem er. Nema þá að þeir séu hreinlega veikir eða skíthræddir. Kettir nefnilega eiga það til að skíta bókstaflega í sig af hræðslu, ég hef séð það með eigin augum. Þá mega þeir náttúrulega ekki vera að því að moka yfir eftir sig. En þetta eru undantekningar. Upp til hópa, þá moka kettir yfir eftir sig. Og það hefur engin áhrif á þig eða þitt líf þó köttur skíti í moldina þína og moki yfir aftur. Kötturinn hjá foreldrum mínum hefur gert það lengi og tréin vaxa þar alveg jafn vel og hjá öðrum, svo bókstaflega, þá skiptir þetta engu máli. Og Númer þrjú; að það séu katta slagsmál sem fólk heyrir í. Ég segi bara aftur: “Hvað með það?” Ég heyri oft í börnum leika fyrir utan heima hjá mér. Ég á ekki þessi börn og væri alveg til í frið og ró fyrir utan gluggan minn. Eigum við að fara að banna lausagöngu barna kannski líka? Nei, núna verður allt brjálað. En það eru og munu alltaf vera einhver hljóð í umhverfinu sem við nennum ekki að hlusta á, hvort sem það eru börn, kettir, fuglar eða eitthvað annað. Ef það er að hafa mikil áhrif á þína líðan, þá ættiru kannski að íhuga það að ganga um með heyrnartól?
Að mínu mati þá eru kettirnir ekki vandamálið hér. Enda skemmir mannskepnan mikið meira heldur en nokkurn tímann kettir hafa gert, og mannfólkið er einnig með mikið meiri læti heldur en kettir. Ef kettir eru að fara svona rosalega í taugarnar á þér, þá finnst mér það bara segja ansi mikið um þig. Það er einhvern veginn búið að réttlæta þetta hatur á köttum í þjóðfélaginu, eins og það sé bara kúl að hata ketti. Hugsaðu þig um í alvörunni, af hverju hatar þú ketti svona mikið? Þeir eru bara að vera til og sinna sínum þörfum. Auðvitað geta kettir verið mis skemmtilegir, alveg rétt eins og fólk, hundar eða hvað annað. En að hata þá og tala svona ógeðslega illa um þá eins og maður hefur orðið vitni að í þessari umræðu, finnst mér bara of langt gengið. Ég myndi aldrei tala svona ógeðslega um nokkurt dýr, sérstaklega ekki dýr sem fólk á sem gæludýr. Það sýnir ekkert nema kaldlyndi og skilningsleysi. Er moldin þín virkilega mikilvægari en gæludýr fólks?
Svo er annað sem þarf einnig að koma fram, en það er þegar fólk er að líkja saman köttum og hundum, eins og þetta sé sama dýrið. Fyrst að hundar mega ekki vera lausir, þá ætti það sama að gilda um ketti. Fólk sem segir það gengur greinilega ekki alveg heilt til skógar, ef það þekkir ekki muninn á hundum og köttum. Þetta eru ekki eins dýr. Stundum þarf ekki nema að ganga fram hjá húsi þar sem býr hundur og þú heyrir geltið út á götu. Ef hundurinn væri laus, hvað myndi hann gera þá? Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að lausaganga hunda var bönnuð á sínum tíma. Margir hundar eru varðhundar og verja sitt og sína eigendur fram í rauðan dauðan, bókstaflega. Kettir forða sér frekar í burtu þegar ókunnugt fólk nálgast þá. Þetta eru bara ekki eins dýr, þau hafa ólíkt eðli og þess vegna geta þau ekki hlýtt sömu reglum og það er ekki hægt að líkja þeim saman.
Hvernig væri að við myndum bara lifa í sátt og samlyndi með köttum? Kettir eru ekki vísvitandi að reyna að gera neinum lífið leitt. Þeir eru bara að vera til. Hugsaðu um þennan kött sem þú ert búinn að vera að blóta í sand og ösku; hann á heimili þar sem hann er elskaður. Hann á fjölskyldu og jafnvel er eigandi hans barn sem leikur sér við hann á hverjum degi og kúrir með honum á nóttunni. Kannski er kötturinn orðinn eld gamall og orðinn stór partur af einhverri fjölskyldu. Af hverju þetta mikla hatur? Af hverju fer þetta svona í taugarnar á þér? Mér finnst það vera raunverulega áhyggjuefnið hér. Hvar er kærleikurinn og hugulsemin? Ég bara spyr.
Takk fyrir að lesa