Langþráð frí

Amma varð sjötug um daginn og af því tilefni langaði okkur að gera eitthvað fyrir hana. Við elstu barnabörnin ákváðum að skipuleggja smá óvissuferð fyrir hana sem var ótrúlega skemmtileg. Þar sem við vorum frekar stór hópur að fara saman þurftum við frekar stórt hús (samt ekki svo mörg að við myndum brjóta fjöldatakmarkanir) og enduðum við á að panta Gamla bæinn í Ytri vík. Í húsinu eru 6 svefnherbergi uppi á efri hæðinni með rúmum fyrir 14 manns og á neðri hæðinni er stofa, stórt og rúmgott eldhús og tvö baðherbergi. Í kjallaranum er svo gufubað og úti er stór pottur sem við notuðum frekar mikið. 

Aðal markmiðið með þessari ferð var að njóta þess að vera saman og slappa af. Við ákváðum að vera ekkert að plana alltof mikið heldur frekar sjá hvernig stemmingin væri, við gætum farið og skoðað eitthvað ef við vildum en það væri líka bara hægt að vera í húsinu. Eitt plönuðum við samt fyrir ferðina en við vissum að ömmu langaði mjög mikið að fara í GeoSea á Húsavík og tókum við laugardaginn í þann rúnt. Enduðum svo daginn á að fara út að borða á Sölku á Húsavík.

Mig langar klárlega að fara aftur í GeoSea og ná að slaka almennilega á þar. Mér fannst allt of margt fólk þarna þegar að við fórum og ég furðaði mig á því hvað væri hleypt mörgum ofan í miðað við takmarkanir því t.d. inn í kvennaklefanum voru engir lausir skápar fyrir þær konur sem að komu á eftir okkur. Eitt sem mér finnst mjög ábótavant þarna er aðstaða fyrir börn! Við fórum með Tristan með okkur ofaní en inni í klefanum gat ég ekki fundið neina aðstöðu til að skipta á honum. Eina sem ég sá voru stólar fyrir börn en þetta bjargaðist þar sem ég var ekki ein. 

Heilt yfir var helgin frábær með góðum hópi og var svo sannarlega komin tími á að hittast og verja tíma saman!

Færslan er hvorki kostuð né unnin í samstarfi.

Þér gæti einnig líkað við