Ég hef í mörg ár átt erfitt með að vera sátt í eigin líkama. Sama hvernig hann leit út, þá var það eitthvað, of stórir kálfar, of stórar lappir, of breitt á milli brjóstanna (fékk sko aldrei almennilega brjóstaskoru). Svo fyrir nokkrum árum ákvað ég bara að reyna mitt allra besta í að byrja að elska sjálfa mig betur og meira og elska mig eins og ég er.
Það fyrsta sem ég gerði var að fara yfir samfélagsmiðlana mína (þá snapchat og instagram) og hætta að fylgjast með fólki sem ýtti undir þessar tilfinningar. Fólk með „fullkominn“ líkama, að mínu mati. Í staðinn fann ég aðganga eins og Ernuland, siljabjorkk, camillarut og liljagisla, ásamt fleirum. Á þeirra miðlum er mikið talað um jákvæða líkamsímynd, sama hvernig líkaminn þinn er.
Þegar ég byrjaði svo í háskóla var í fyrsta skipti sem ég upplifði að sama hvernig maður er í laginu, má maður bara klæða sig eins og maður vill, það var rosalega frelsandi að sjá þetta. Ég ólst upp í minni samfélögum, þar sem allir höfðu svipaðan fatastíl og klæddust svipað, sem mér fann mig aldrei í. Það hefur þó tekið mig langan tíma í að fara að breyta eitthvað fatastílnum eða vera eitthvað öðruvísi, en það er gott að vita og sjá að maður getur gert það, og öllum er sama.
Á meðgöngunni var í fyrsta skipti á ævinni sem ég gjörsamlega ELSKAÐI hvernig ég leit út. Ég pældi aldrei í því hvað aðrir voru að hugsa, hvort þetta og hitt væri í lagi. Ég naut mín og ætlaði að halda í þessa tilfinningu eins lengi og ég gat.
Það hefur vissulega stundum verið smá ströggl að elska þennan „nýja“ líkama eftir barnsburð, en hann er samt bara svo frábær! Að hugsa sér að hann gekk með heilt barn og fæddi það í heiminn er bara svo magnað að hann á alveg skilið smá slökun í einhverri pressu um að léttast eða breytast á einhvern hátt.
Þetta er ekki svo auðvelt að breyta hugarfarinu og tekur það tíð og tíma. Það er allt í lagi að suma daga að líða illa með sjálfan sig og aðra frábærlega. Þetta gerist ekki á einni nóttu. Mér finnst enn í dag mikilvægasta var að velja mér hverja og hvað ég var að skoða á samfélagsmiðlum. Það hefur í rauninni verið grunnurinn að allri minni sjálfsvinnu og hef ég fengið mikla hjálp þaðan. Núna finnst mér ekkert mál að fylgja öðrum aðgöngum, því í dag finnst mér allir hafa fullkomna líkama, hver einn og einasti einstaklingur. Það á líka við um mig. Því hver líkami passar hverri manneskju. Væri það ekki svolítið skrítið og kjánalegt ef við myndum öll líta eins út? Alveg jafn há, alveg jafn stórar mjaðmir, jafn stórann rass, jafn stórann maga, jafn stór brjóst? Það væri engin fjölbreyttni í því.
Það er rosalega frelsandi að geta orðið sáttur, eða jafnvel bara aðeins sáttari, í eigin líkama. Ég man enn eftir fyrsta skiptinu, eftir barnsburð, sem ég mætti að hitta vini mína og ég hugsaði aldrei um það hvað þeim fannst um mig. Þetta var svo mögnuð tilfinning að ég hef haldið fast í hana, man stund og stað og var svo stolt af mér að þegar ég kom heim (fattaði þetta á heimleið) að þá sagði ég Þorfinni strax frá því.
Það er hægt að byrja að elska líkama sinn hvar og hvenær sem er, og mæli ég eindregið með því að láta á það reyna. Allir líkamar eru fullkomnir.
Takk fyrir lesturinn!