Ég hef lengi verið afar sparsöm með notkun á rafmagni heima. Það er regla hér að skilja aldrei eftir kveikt ljós og taka allt úr sambandi ef það er ekki í notkun. Þegar við keyptum húsið okkar þá fengum við rafmagnsreikningana áætlaða út frá notkun fyrrum eigenda. Við borguðum okkar áætlun og héldum áfram að nota rafmagnið eins og við erum vön að gera.
Núna í byrjun febrúar hafði fyrirtækið sem ég versla rafmagn við samband við mig. Þau tilkynntu mér að ég ætti inni töluverða inneign hjá þeim þar. Við notum víst mun minna rafmagn en áætlað var fyrir. Það er augljóst hvað það borgar sig að fara vel með rafmagnið. Mér datt í hug að deila með ykkur hvað það er sem við gerum. Ef fleiri vilja reyna minnka sinn rafmagnsreikning. 😊
- Áður en við fluttum inn þá fórum við í smá framkvæmdir. Partur af því var að skipta út öllum ljósum. Við keyptum ljós með innbyggðum led perum. Öll ljósin í húsinu voru frekar gamaldags og hitnuðu töluvert og fannst okkur mikilvægt að taka þau út. Ég er ekki frá því að skipta yfir í led hafi snar minnkað rafmagnsreikninginn.
- Það er góð regla hjá okkur að slökkva alltaf ljósin eftir okkur.
- Gott að taka allt úr sambandi ef hluturinn er ekki í notkun. Þetta á sérstaklega við öll hleðslutækin.
- Minnkaðu notkun á þurrkaranum. Þurrkarar eyða miklu rafmagni og fara ekkert sérlega vel með fötin.
- Ef nota á þurrkara mæli ég með að setja eitt stykki þuran bol eða handklæði með. Það flýtir fyrir honum heilmikið og sparar rafmagnið.
- Þegar ég þvæ þvott þá reyni ég fylla vélina passlega. Ég set ekki of mikið og alls ekki of lítið. Nýta hvern þvotta hring👏🏼
Þetta eru mín ráð til ykkar. Mæli með fyrir alla að reyna sitt besta og spara rafmagnið. Mæli líka með fyrir fólk sem býr í fjölbýli eða leigir að fara reglulega yfir þessi mál. Oft er x upphæð á mánuði sem allir borga en ef tölurnar sýna minni eyðslu þá er alltaf hægt að gera betur. Fáið nákvæmar tölur á húsfundi og skoðið þessi mál.
Hef þetta ekki lengra 🖤