Kvíði og hvernig skal takast á við hann

Kvíði er tilfinning sem ég hef verið að kljást við frá því ég man eftir mér. Síðustu 2-3 árin hef ég náð að tækla kvíðann og í dag finn ég einstaka sinnum fyrir honum. Kvíðaköstin hafa minnkað verulega og ég hreinlega man ekki hvenær ég upplifði ofsakvíðakast síðast. Ég leitaði til sálfræðings og var sett á kvíðalyf sem hafði alveg góð áhrif en ekki nóg. Maður þarf nefnilega að leggja mikla vinnu í þetta sjálf/ur. Þetta er gífurleg vinna sem þarfnast vinnu alla daga, allan daginn.

Það er til eðlilegur kvíði og svo kvíðaröskun.
Það er eðlilegt að kvíða fyrir ýmsum hlutum svo sem fjárhag, heilsufar og þess háttar. 
En varðandi kvíðaröskun þá getur maður fundið fyrir kvíða dagsdaglega og maður finnur fyrir stöðugri spennu og togstreitu. Jafnvel einföldustu daglegu athafnir geta verið óyfirstíganlegar. 

Það er margt sem veldur kvíða hjá fólki og margar mismunandi leiðir til að tækla hann. Áföll, atvik, heimilisaðstæður, líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi. Það sem fylgir eftir er oft lítið sjálfstraust og sjálfsálit. Mögulega er búið að brjóta viðkomandi það mikið niður að viðkomandi fer sjálf/ur að trúa því og heldur síðan áfram að brjóta sig niður. 

Þegar ég fór að finna fyrir kvíða þá byrjaði ég að rýna aðeins í hann. Ég fór að spá í aðstæðunum í kringum mig. Hvað er það sem olli kvíðanum, hvað gerðist, hvar var ég, með hverjum og koll af kolli. Ákveðnar manneskjur, staðir, setningar geta triggerað kvíðann af því það minnir mann á eitthvað atvik sem gerðist í fortíðinni. 

Hverjir kannast ekki við það að fara að sofa og muna allt í einu eftir einhverju vandræðalegu sem við gerðum fyrir 10+ árum?

Kvíði er viðbragð við kringumstæðum þar sem einstaklingur upplifir sig í ógnvekjandi aðstæðum þar með talið þegar fólk upplifir skömm eða niðurlægingu (Oddi Erlingsson, 2000). 

Að upplifa hugsanaskekkjur.
Allt eða ekkert. Að finna engann meðalveg. Annaðhvort eru hlutirnir góðir eða slæmir. Frábærir eða ómögulegir. Ef við metum frammistöðu okkar ekki fullkomna, getur hún ekki verið annað en misheppnuð. Þetta er gott dæmi um hugsanaskekkju.

Óréttmætar alhæfingar, sem dæmi þá færð þú einkunnablað í skólanum. Þrjár tíur, en eina fimmu. Þú hundsar tíurnar en einblínir á fimmuna, þetta var allt til einskis og þú getur ekki neitt. Við veljum aðeins brot af heildar myndinni og látum eins og það sé öll sagan sem það er aldrei. 

Að vinna í því að ná andlegu jafnvægi.
Við erum að labba inn í aðstæður sem við erum óörugg í og ráðum ekki við. Þá er gott að tileinka sér hugræna atferlismeðferð.
Hvað er það versta sem getur gerst? Og hvað er það besta sem getur gerst?
Raunveruleikinn er þarna mitt á milli.

Sjálfstraust.
Samanburður er langversti kvíðavaldurinn þegar kemur að sjálfstrausti. 
,,Ég er ekki eins sæt og þessi.‘‘
,,Mér gengur ekki eins vel í skóla/vinnu og þessi.‘‘
,,Ég er ekki komin eins langt í lífinu og jafnaldrar mínir.‘‘

Við getum ekki verið að bera okkur saman við aðra. Við getum aðeins borið okkur saman við okkur sjálf. Af því við erum ekki nákvæmlega eins og hin manneskjan, höfum ekki sama grunn. Með tilkomu samfélagsmiðla þá sjáum við oftast aðeins þegar fólki gengur vel og líður vel, en við sjáum ekki erfiðleikana. Sæta stelpan sem þú ert að fylgjast með á Instagram, sem lítur út fyrir að vera með allt á hreinu og allt tiptop, getur verið að ströggla á öðrum sviðum sem hún kýs að sýna ekki. En þú ferð að bera þig saman við glansmyndina sem hún sýnir þér.

Hvernig skal byggja upp sjálfstraust.
Talaðu fallega til þín, á hverjum degi og hrósaðu þér sjálfri/sjálfum. Þangað til þú ferð að trúa þessu. Settu þér krefjandi en raunhæft markmið, þegar við náum markmiðum þá fáum við meiri trú á okkur sjálf.
Við höfum öll okkar kosti og galla. Eða sterkar og veikar hliðar vil ég frekar kalla það. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum ekki fullkomin og allir hafa sína veikleika eða galla. En við megum ekki leyfa göllunum okkar að stjórna lífi okkar og sjálfsmynd, heldur einblína á okkar kosti og styrkja þá.
Lærðu að taka hrósi og ekki rífa þig niður. Lærðu að segja takk þegar einhver hrósar þér, í stað þess að neita fyrir það. 

Þegar við höfum náð að byggja upp ágætis sjálfstraust þá spáum við minna í því hvað öðrum finnst um okkur. Af því álit annarra skiptir engu máli, það sem skiptir máli er að þú hefur trú á sjálfri/sjálfum þér og líður vel í eigin skinni.

Það er engin/n eins og þú og þú ert aldrei ein/n! <3

Inga

Þér gæti einnig líkað við