Kvíði eftir fæðingu – Mín saga

Mig langaði að deila með ykkur færslu á persónulegum nótum og mér finnst hún sérstaklega eiga við á þessum skrýtnu tímum í samfélaginu í dag, þar sem kvíði einkennir eflaust margar meðgöngur á covid tímum. Kvíði eftir fæðingu (líka þekkt sem postpartum anxiety) er eitthvað sem við heyrum oft ekki talað um. Umræða um fæðingarþunglyndi hefur aukist rosalega síðustu ár sem er alveg frábært, geðheilsan skiptir svo ótrúlega miklu máli og ætti aldrei að vera taboo. En mér finnst fræðsla um fæðingarkvíða vanta og því langar mig að deila með ykkur minni sögu og vekja athygli á kvíða eftir fæðingu.


Mér fannst ég alltaf svo ótrúlega ein í heiminum með þær tilfinningar sem fylgdu komu barnanna minna í heiminn en tengdi þær ekki við þunglyndi þannig ég stimplaði sjálfan mig bara sem „nojaða mömmu“. Minn kvíði lýsti sér þannig að alveg frá fæðingu barnanna minna þangað til þau urðu ca 2 ára fannst mér þau vera í stöðugri hættu og var oft viss um að það væri bara tímaspursmál hvenær ég myndi vakna og barnið mitt væri ekki að anda.

Ég burðaðist lengi með þessar tilfinningar og var alltaf í stöðugum ótta. Ég átti til dæmis ótrúlega erfitt með að gefa krökkunum að borða og forðaðist ég nánast allan mat í bitum því ég var svo hrædd um að þau myndu kafna. Við hvern hósta, smá hita eða hor var ég farin til læknis og viss um að í þetta skiptið væri eitthvað alvarlegt að. Vinkonur mínar grínuðust mikið með að ég ætti að færa lögheimilið mitt yfir á Læknavaktina ! Ég ryksugaði oft á dag þegar þau byrjuðu að skríða, þorði ekki að láta þau sofa í sínu eigin rúmi og hafði þau alltaf uppí. Ég var svo sjálf andvaka með skeiðklukku í símanum að mæla púlsinn hjá þeim. Það skipti ekki máli hverjar aðstæður voru, ég var alltaf búin að sjá fyrir mér verstu útkomu og bjóst við henni.

Ég gæti lengið talið upp öll mín einkenni af fæðingarkvíða en það sem skiptir máli er að maður leiti sér hjálpar þegar líðanin er orðin slæm.

Ég var alltof lengi að leita til fagaðila og gerði mér í raun ekki grein fyrir því að ég væri að kljást við alvarlegan ofsakvíða fyrr en Ísabella var um 8 mánaða. Aðstæður voru mjög slæmar og var hver dagur erfiðari enn sá fyrri. Ætli það hafi ekki verið verst hvað ég gat ekki slökkt á hugsunum mínum og var oft búin að ímynda mér og skipuleggja jarðarför fyrir ungabarnið mitt í hausnum á mér, hræðslan var bara svo mikil og raunveruleg.

Ég leitaði mér hjálpar og eftir mikla vinnu með sálfræðing er ég í dag komin yfir mesta kvíðann. Ég vissi að ég væri ekki með fæðingarþunglyndi og hafði aldrei heyrt um postpartum anxiety áður og hélt í langan tíma að svona væri eðilegt að konum liði eftir fæðingu.

Mig langar því að hvetja allar konur sem eru að glíma við vanlíðan á meðgöngu eða eftir fæðingu að ræða við makann sinn/nána vinkonu og auðvitað fagaðila. Við eigum svo dásamlegt heilbrigðisstarfsfólk sem vilja alla sína hjálp gefa okkur ef við bara biðjum um hana.

This error message is only visible to WordPress admins
There has been a problem with your Instagram Feed.
Error: No posts found.

Þér gæti einnig líkað við