Ég fór í kósý sumarbústað um síðustu helgi. Ég pantaði bústaðinn í gegnum VR og var þetta lítill tveggja manna bústaður í Miðhúsaskógi, sem er í Bláskógabyggð á Suðurlandinu, alls ekki svo langt frá Geysi. Í bústaðnum var gasgrill og heitur pottur, en því miður vegna mikils snjós og frosts á svæðinu þá virkaði heiti potturinn ekki, þar sem allt var frosið. En það var hægt að keyra í 5 mínútur að Úthlíð og fara í heita pottinn sem er þar. Hann er opinn til 20 á kvöldin og var ótrúlega nice. Enginn var á svæðinu og útsýnið úr pottinum er GEGGJAÐ. Það er hægt að taka drykki með sér í pottinn, þannig að þetta var nú bara næstum því eins og að vera í sínum eigin heita potti. Þó ég verð nú að viðurkenna að það voru mikil vonbrigði að hafa ekki heitan pott, ég var búin að hlakka svo mikið til þess. En ég hafði samband við VR strax eftir helgina og lét þá vita af þessu, og þeir voru ekki lengi að bæta mér upp fyrir þetta. Svo ég ætla alls ekki að kvarta, frekar panta ég aftur bústað hjá þeim. Rosalega góð þjónusta!
Það er svo mikið hægt að gera á Suðurlandinu. Það er hægt að fara að Gullfoss og Geysi, það er hægt að fara í fjallgöngur, til dæmis upp á Efstadalsfjall sem er þarna rétt hjá í 15 mínútna akstursfjarlægð, svo eitthvað sé nefnt. En það var auðvitað búið að snjóa rosalega mikið á þessum tíma og búið að vera mikið frost, svo það var allt á kafi í snjó og því allar gönguleiðir á svæðinu sem venjulega eru út um allt, voru ófærar. En við redduðum okkur og gengum bara í kringum Geysi svæðið og í bústaðahverfinu og svona á þeim stöðum sem búið var að moka. Það er svo notalegt að vera svona í kyrrðinni. Það var grillaður góður matur, spilað, horft á Netflix, teknar æfingar í stofunni og sofið út. Fullkomið!
Alltaf þegar ég fer í svona bústaðaferð þá hugsa ég með mér “af hverju gerir maður þetta ekki oftar”? Það er svo gott að kúpla sig svona aðeins út, slaka bara algjörlega á, skipta um umhverfi og njóta náttúrunnar. Ég mæli alveg klárlega með því ef þið hafið tök á að panta ykkur bústað um helgi yfir vetrartímann og njóta.
Takk fyrir að lesa