„Það eru forréttindi að eldast“ er setning sem ég heyri orðið í hvert skipti sem ég á afmæli. Áður fyrr var ég mikið afmælisbarn og hlakkaði alltaf svo til og vildi halda uppá daginn. Ég hlakka ekki lengur til að eiga afmæli. Næst þegar ég á afmæli verð ég 39 ára sem þýðir að ég er bara korter í fertugt!! Ef einhver myndi spyrja mig hver væri minn helsti ótti, þá væri svarið mitt einfalt: „Ég er skíthrædd við að eldast“. Jújú, ég er líka alveg lofthrædd, en ég held að ótti minn við að eldast trompi lofthræðsluna. Ég hef fundið fyrir þessum ótta síðan ég varð þrítug. Ég kvíði hverjum afmælisdegi og tölunni sem hækkar bara ár eftir ár. Tilhugsunin um að núna er ég búin að vera ung og er bara á leiðinni að verða gömul og það er EKKERT sem ég get gert í því, finnst mér vægast sagt hræðileg.
Ég hef alltaf verið talin mjög ungleg í útliti, og held ég að það hafi líka eitthvað með það að gera að ég er frekar lágvaxin. Ég eignaðist dóttur mína tvítug og elskaði að sjá fólk missa andann yfir því að hún væri dóttir mín. Við vorum iðulega spurðar hvort við værum systur og fólk átti bara bágt með að trúa því að ég væri nógu gömul til að geta verið mamma hennar. Það var svo fljótlega uppúr þrítugt sem ég fór að taka eftir því að fólki fannst þetta ekki lengur jafn sjokkerandi og ég verð að viðurkenna að ég átti stundum erfitt með það. Ég elskaði að vera unglega mamman, en allt í einu var ég bara ósköp venjuleg mamma. Sláandi!
Það er ekki nóg með að talan hækki við það að eldast, það fer heldur ekki framhjá manni þegar maður lítur í spegilinn. Nýjar hrukkur myndast hér og þar, gráu hárunum fjölgar ört, það verður erfiðara með hverju árinu að reyna að halda sér í kjörþyngd og þyngdaraflið fer að taka sinn toll. Það þarf minna til að þreyta mann og maður hættir að gera greinarmun á því hvort sé föstudagskvöld eða mánudagskvöld. Þetta eru neikvæðu hlutirnir sem ég sé við það að eldast. Ég hef SEM BETUR FER komist að því uppá síðkastið að það er líka mjög mikið að jákvæðum hlutum sem fylgja því að eldast. Ég hélt ég myndi aldrei komast á þann stað, en ætli aldri fylgi ekki líka einhver þroski…..
Uppáhalds kvótið mitt er „Do more of what makes you happy“ og finnst mér það passa sérstaklega vel við hér. Þegar maður uppgötvar að fertugsaldurinn nálgast óðfluga þá er manni það skyndilega mjög ljóst að maður vill ekki eyða tímanum sínum í eitthvað rugl, nóg hefur maður gert af því yfir ævina. Ég er frekar ein heldur en að vera í leiðinlegu sambandi. Ég geri ekki hluti fyrir fólk sem myndi aldrei gera neitt fyrir mig. Ég eyði ekki lengur tíma í „vini“ sem eru ekki raunverulega vinir mínir. Ég fer ekki á deit með einhverjum af því að ég vil ekki vera dónaleg og segja nei. Ég stunda bara líkamsrækt sem ég elska. Ég ferðast eins mikið og ég mögulega get. Auðvitað er það misjafnt á milli fólks hvað það er sem gerir mann hamingjusaman og það er eitt af því sem mér finnst svo magnað við að eldast. Ég er ekki lengur hrædd við að vera ég sjálf. Ég hreinlega hef bara ekki tíma í að þykjast vera einhver önnur en ég er.
Annað sem fylgir hækkandi aldri eru efasemdir um hvort maður sé að haga sér samkvæmt aldri. Það hafa allir heyrt einhvern tala um fólk sem er að klæða sig eða haga sér óviðeigandi miðað við aldur. Ég fór í gegnum tímabil þar sem ég velti þessu mikið fyrir mér. Ég vildi ekki deila sumum myndum af mér að því að mér fannst þær óviðeigandi fyrir svona „gamla“ konu. Ég hugsaði oft um að hætta að blogga og gramma því ég væri nú orðin of gömul fyrir þetta. Ég meina, ég er korter í fertugt sko! En svo ákvað ég að breyta þessum hugsunarhætti. Eins og ég sagði hér að ofan, ég vil ekki eyða tíma mínum í að þykjast eitthvað. Mér finnst gaman að blogga, mér finnst gaman að gramma og þess vegna ætla ég að halda því áfram. Ef einhverjum finnst það sem ég set á instagram óviðeigandi, þá get ég allavega státað mig af því að ég er að gefa fólki eitthvað til að tala um. Þó maður sé að eldast þá þarf maður ekki endilega að haga sér eins og gamalmenni, nema maður kjósi að gera svo. Við erum öll svo ótrúlega mismunandi og eldumst á misjafnan hátt og enginn háttur er betri eða réttari en annar.
Maður getur nefnilega nýtt þennan ótta við að eldast sem hvatningu til að endurskoða líf sitt og virkilega velja og meta hvað maður eyðir tíma sínum í. Þannig að setningin „Það eru forréttindi að fá að eldast“ meikar meira sens fyrir mér með hverju árinu sem líður. Ég hataði þessa setningu fyrst þegar fólk var að reyna að hughreysta mig. Nú fer ég að tilheyra þessum hópi sem segir unga fólkinu að það séu forréttindi að fá að eldast og þau hugsa með sér að þetta sé einmitt það sem gamla fólkið segir til að reyna að líða betur með að vera orðin gömul. Ég held að þessi ótti við að eldast sé fullkomlega eðlilegur, þetta er bara spurning um hvernig maður ákveður að tækla hann og ekki láta hann eyðileggja fyrir sér. Ég get alveg staðfest það að lífið er alveg jafn skemmtilegt þó maður sé korter í fertugt!
Takk fyrir að lesa