Kettlingar

Kisan mín hún Matta eignaðist kettlinga í síðustu viku og komu hvorki meira né minna en fimm kettlingar. Hún byrjaði um morguninn um 6 leytið með hríðir og kom upp í rúm til mín og kúrði alveg uppí hálsakoti hjá mér (sem hún gerir aldrei, hún er ekki mikið fyrir að kúra) í gegnum allar hríðirnar og þangað til fyrsti kettlingurinn byrjaði að kíkja. Þá færði hún sig fram og gaut á stofugólfinu. Ég var búin að búa um hana í kassa en hún virtist ekki vilja nota hann svo ég gerði tilbúið fyrir hana á stofugólfinu lítið bæli og færði hún sig þangað inn og gaut restinni af kettlingunum þar. Það er ótrúlegt hvað kettir eru magnaðir og eru bara alveg með á hreinu hvað þeir eiga að gera. Hún var orðin svolítið þreytt eftir þriðja kettlinginn og sofnaði aðeins áður en hríðirnar byrjuðu aftur. Ég hélt í smástund að hún væri búin þá, þar sem það leið smá tími þarna á milli. Þegar fimmti kettlingurinn var kominn í heiminn var hún mjög greinilega alveg búin á því.

Matta leyfði engar heimsóknir fyrst. Hún stökk á fólk og réðst bara hreinlega á það, þannig að fólk endaði á að bakka út frá okkur skíthrætt. Svo við ákváðum bara að banna fólki hreinlega að koma í heimsókn þangað til við finnum að hún er búin að róast aðeins. Ef hún sér opinn fataskáp þá á hún það til að taka einn og einn kettling og færa þá þangað, en svo virðist hún bara gleyma þeim þar svo við höfum bara fært þá aftur til hennar og reynum að passa að hafa alla skápa lokaða. Það er svo gaman að fylgjast með kettlingunum stækka með hverjum deginum sem líður og núna eru þeir byrjaðir að opna augun. Matta tekur sig rosalega vel út í mömmuhlutverkinu, en hún er borða svona þrisvar sinnum meira en áður þar sem hún er náttúrulega með fimm kettlinga á spena. Við sjáum hana bara horast niður, svo ég er að fara mjög reglulega í gæludýrabúðina og kaupi handa henni eðalfóður svo hún fái nóg af góðri næringu.

Við ætlum að halda kettlingunum þangað til þeir eru sirka 10 vikna, að minnsta kosti. Ætlum bara aðeins að sjá til hvernig gengur hjá þeim þegar þar að kemur. Svo munum við velja vel og vandlega heimili fyrir þá, væri gaman að hafa þá hjá fólki þar sem maður getur fengið að fylgjast aðeins með þeim. Það verður klárlega ekkert vandamál að fá heimili fyrir þá, eftirspurnin er búin að vera gífurlega mikil. Enda ekki skrítið, kisur eru bestar <3

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við