Kerlingafjöll

Ég skellti mér í smá göngu um verslunarmannahelgina og fór til Kerlingjafjalla. Við vorum tvær saman og gistum í herbergi í Ásgarði með sér baðherbergi eina nótt. Við mættum á svæðið seinni partinn á laugardeginum og byrjuðum á að fá okkur að borða, enda búnar að vera á ferðalagi allan daginn. Ég fékk mér kjötsúpu og lambakjöt sem stóð alveg fyrir sínu. Kjötsúpan var ein sú besta sem ég hef smakkað á ævi minni, mæli alveg hiklaust með henni. Eftir matinn ákváðum við að ganga að Borholunni, sem er náttúrulaug þarna á svæðinu 1,5 km frá Ásgarði. Það var byrjað að rigna þarna ansi hressilega og engir búningsklefar á svæðinu svo það er nauðsynlegt að taka með sér bakpoka og regnplast til að setja yfir til að geyma fötin sín á meðan maður er ofaní. Laugin var mjög notaleg með fallegu útsýni og sáum við ekki eftir því að hafa gert okkur þessa ferð, þrátt fyrir að það hafi ekki verið þurr þráður á okkur þegar við komum til baka.

Daginn eftir vöknuðum við um níu leytið og skelltum okkur í morgunmat, sem var innifalinn í gistingunni. Við fengum okkur brauð, egg, beikon og appelsínusafa. Um að gera að fá sér næga orku fyrir göngu dagsins. Eftir að hafa fengið aðstoð starfsmanna á svæðinu ákváðum við að skella okkur í gönguleiðir A og F sem er að finna í þessum bækling HÉR.

Gangan var mjög þægileg og það var ekki nema á tveimur stöðum þar sem lofthræðslan mín tók vel á og var það vegna þess að mikil leðja var á þeim svæðum sem gerði það að verkum að það var vel hált. Ég myndi segja að þetta sé ganga sem flest allir geta farið, en þó myndi ég mæla með að vera með göngustafi og í góðum gönguskóm, ég fann allavega að það hjálpaði mér mikið. Ég er ekki viss um að ég hefði verið eins örugg í þessari göngu án stafanna. En þetta var í fyrsta skiptið sem ég fer í göngu með stafi og er það klárlega eitthvað sem ég mun gera hér eftir þegar um svona lengri göngur er að ræða. Gangan sjálf tók um 5 tíma með stoppum og leiðin er sirka 15 km. Ég gæti ekki mælt meira með þessari gönguleið, en landslagið þarna er svo stórkostlegt og mikil litadýrð. Ég held ég láti myndirnar bara tala fyrir sínu.

Takk fyrir að lesa

Ég er búin að setja alla gönguna í highlight á instagramminu mínu.

Þér gæti einnig líkað við