Nú er að líða að Íslandsmeistaramótinu í fitness og fannst mér því mjög viðeigandi að koma með nokkur ráð sem er gott að hafa í huga þegar maður er að fara að keppa. Sjálf hef ég keppt tvisvar á bikarmótinu í fitness, árið 2016 og 2017 og einu sinni á Íslandsmeistaramótinu árið 2018.
Íslandsmeistaramótið 2018
Mig langar að byrja að segja ykkur smá frá síðasta Íslandsmeistaramóti sem ég tók þátt í 2018 þar sem það hafa kannski ekki allir heyrt þá skrautlegu sögu (mögulega bara þeir sem lásu baksíðu Morgunblaðsins í fyrra)! Ég byrjaði daginn á að vakna klukkan hálf fimm á mótsdag og keyrði yfir til Báru Jónsdóttur (Báru beauty) sem ætlaði að sjá um förðun og greiðslu fyrir mig. Ég sat í förðunarstólnum og Bára var byrjuð að mála mig, meikið var komið á og hún var að byrja að setja augnskuggann á mig. Ég beygi mig fram og dett úr förðunarstólnum, beint á andlitið og dett út í smá stund.
Heldur þú að ég geti ekki örugglega keppt á eftir?
Þegar ég opna augun sé ég að Bára hleypur til mín með viskastykki í höndunum og spyr hvort það sé alveg í lagi með mig. Ég lít niður og sé að það er að blæða úr enninu mínu og þori alls ekki að líta í spegil þar sem ég er mjög blóðhrædd manneskja. Ég spyr Báru hvort þetta sé ekki bara allt í lagi og hvort ég geti ekki alveg keppt með þetta sár og hún er ekki alveg sannfærð um það. Ég hringi í Hödda sem brunar yfir, þegar hann lítur á mig sé ég skelfingarsvipinn á honum líka. Hann tók mig beinustu leið á slysó klukkan sex um morguninn þar sem ég var með gat á hausnum. Ég fékk sem betur fer fljóta þjónustu á slysó en það þurfti að sauma sjö spor á ennið.
Ég var svo ákveðin í að ætla að keppa að ég tók það ekki í mál að láta þetta stoppa mig! Um leið og búið var að sauma ennið brunaði ég í brúnkusprautun í Háskólabíó til að fá keppnislitinn minn. Ég var svo heppin að Bára og Hrönn Sigurðardóttir voru svo yndislegar að mæta eins fljótt og þær gátu með snyrtidót og krullujárn og þær hjálpuðu mér að ná að verða tilbúin fyrir svið. Okkur tókst að greiða toppinn minn yfir stóra skurðinn sem var þvert yfir ennið mitt og það voru alls ekki margir sem tóku eftir þessu. Ég átti að mæta á sviðið klukkan 10 um morgun og ég er ekki að ýkja með það að við rétt náðum að klára förðunina og hárið áður en ég steig á sviðið og ég var ennþá í frekar miklu sjokki.
Eins og þessi saga sýnir þá er ég rosalega ákveðin manneskja. Ef ég er búin að taka einhverja ákvörðun þá stend ég við hana, sama hversu erfitt það er. Það var svo sannarlega þess virði þetta skiptið þar sem þessi dagur var alveg yndislegur og ég á margar góðar minningar þennan dag. Dagurinn endaði á því að ég lenti í öðru sæti í mínum hæðarflokki og ég var alveg ótrúlega ánægð með þann árangur.
Keppnisdagur og mín ráð fyrir keppendur
Í framhaldi af þessu langar mig að koma með nokkur góð ráð fyrir alla sem ætla að keppa.
- Verið skipulögð og hugsið vel út í allar tímasetningar. Það þarf að huga að því hvenær flokkurinn á að stíga á svið, hvenær er best að fara í förðun, greiðslu, brúnku og allt sem þarf að gera þennan dag og vera tímalega í að negla niður tímasetningarnar
- Reyndu að sleppa við það að fá gat á hausinn rétt fyrir svið
- Vertu klár með nesti fyrir daginn (í samráði við þjálfara), ég er alltaf búin að elda deginum áður þannig að allt sé klárt á keppnisdag
- Reyndu að fara snemma að sofa deginum áður (ég veit það getur verið erfitt)
- Reyndu að missa þig ekki í stressi, það er best að halda ró sinni og ekki gleyma að þessi dagur er æðislegur í alla staði, sama hver niðurstaðan verður! Maður má ekki gleyma að njóta
- Mæli með að vera duglegur að taka myndir yfir daginn
- Það er gott að vera í fríi frá vinnu vikuna fyrir mót, maður er oft mjög þreyttur þessa daga
- Hlustaðu vel á þjálfarann þinn, hann veit hvað hann er að tala um!
Hvað er gott að hafa með í keppnistöskunni
- Bikiní/keppnisskýla og keppnisskór!
- Ekki gera sömu mistök og ég og gleyma öllu skartinu
- Teppi til að setja á gólfið baksviðs, það er rosalega notalegt að geta lagst niður og slakað á
- Mæli með að hafa spegil til að æfa pósur og sjá hvort makeup og allt sé í lagi
- Bikini bite fyrir stelpur svo bikiníið sé á réttum stað á sviði
- Gott að hafa snyrtidót með til að fríska upp á, þá sérstaklega púður og varalit
- Vaselín til að setja á tennurnar fyrir svið, það getur verið erfitt að halda brosi svona lengi og þetta er algjör snilld
- Teygjur til að pumpa vöðvana fyrir svið, ef þú átt lóð þá er það líka snilld
- Súkkulaði fyrir svið! Taktu með þitt uppáhalds og njóttu!
- Það er mjög þægilegt að hafa léttan slopp til að fara í meðan maður bíður baksviðs (sem brúnkan smitast ekki í
- Víð föt til að hoppa í þegar það kemur hlé
- Hársprey fyrir stelpur, sléttujárn eða krullujárn
- Hleðslutæki fyrir símann
Í lokin langar mig bara að segja, gangi ykkur öllum ótrúlega vel á mótinu!
Vona að þetta hjálpi einhverjum
Ása Hulda Oddsdóttir
Fylgið mér á Instagram fyrir alls konar fróðleik og pepp!