Ég fór í gönguferð með Siggu vinkonu minni í síðustu viku á vegum Fjallavina. Gönguleiðin sem við fórum er kölluð Kattartjarnaleið og er mjög fjölbreytt og skemmtileg leið sem liggur á milli Grafningsvegar og Hveragerðis, sunnan megin við Þingvallavatn. Það er gengið um fjöll, gil og gljúfur svo gangan verður aldrei einhæf eða leiðinleg. Gönguleiðin er um 16 km og ætti að vera flestum fær, því það er engin gríðarleg hækkun, eða um 280 metrar samtals. Þannig að þeir sem eru lofthræddir, eins og ég, þurfa lítið að hafa áhyggjur. Í byrjun göngu er vaðið yfir Ölfusvatnsá, svo við tókum með vaðskó. Gangan endar svo í Reykjadalnum, þannig að þeir sem vildu gátu skellt sér í heitu böðin þar. Við ákváðum að gera það ekki að þessu sinni. Gangan tók samtals um 6 tíma með stoppum og þess háttar, en göngutíminn okkar Siggu var rétt um 4 tímar.
Ég mæli ótrúlega mikið með þessari göngu, hún var mjög skemmtileg og falleg. Hún var örlítið krefjandi hér og þar, en aldrei erfið og mér leið bara ótrúlega vel bæði á göngunni og eftir hana. Hér eru nokkrar myndir úr göngunni:
Takk fyrir að lesa