Kann þitt barn að hringja í Neyðarlínuna?

Kann þitt barn að hringja í 112?
Ég hef oft pælt í þessu, hvað það er mikilvægt að allir kenni börnunum sínum að hringja í neyðarlínuna ef kalla þarf eftir aðstoð.
Til dæmis ef að mamma eða pabbi svara ekki sama hvað er reynt eða slasa sig mjög illa.

Það hefur sýnt sig hérna á Íslandi hvað þetta er mikilvægt málefni, þar sem krakkar hafa bjargað foreldrum eða öðrum fullorðnum,
með því einu að hringja í 1-1-2 og kalla eftir aðstoð.

Til er allskonar fræðsluefni um þetta sem krakkar læra í skóla eða á elstu árum leikskóla en helsta vandamálið í dag er að krakkar kunna ekki að hringja úr læstum snjallsímum foreldra, þar sem alltaf færri og færri kjósa það að hafa heimasíma síðustu ár.

Krakkarnir þurfa að geta svarað spurningum neyðavarðar um hvað amar að og hvar þau séu.

  • Fullt nafn barns?
  • Hver þarf aðstoð?
  • Hvar er barnið?
  • Hvað er að?

Þetta eru allt upplýsingar sem barnið þarf að geta svarað, svo um að gera að æfa þau í að svara þeim.
Svo þarf að muna að skella aldrei á neyðarvörðinn fyrr en hann segir svo.

Sjálf hef ég kennt Fanndísi Emblu 5 ára, að hringja úr mínum síma en hún kann það til dæmis ekki úr pabba síns síma ennþá.
En eftir að við fluttum í september síðastliðinn ákváðum við að hætta með heimasíma þar sem hann er aldrei notaður, en núna er ég efins þar sem heimasími á alltaf sinn sama stað á meðan farsímar fullorðna fólksins geta verið útum allt hús. Ég allavega veit ekkert alltaf nákvæmlega hvar ég lagði símann minn frá mér og get þá varla ætlast til þess að 5 ára barnið mitt myndi finna hann, ef að eitthvað gerðist eða hvað?
Bara vangaveltur.

Um helgina ætlum við foreldrarnir allavega að taka þessa umræðu og æfa okkur að hún geti svarað þessum spurningum. Henni finnst þetta virkilega erfitt umræðuefni að ræða það hvað hún þurfi að gera ef eitthvað gerist, svo það verður tekið í litlum skrefum.
Til dæmis er gott að hún viti götuheiti og húsnúmer í staðinn fyrir „græna nýja húsið“.
Hún kann númerið 1-1-2, en mikilvægt er að tala alltaf um tölustafina staka í staðinn fyrir hundrað og tólf.

Góð leið er: einn munnur- eitt nef- tvö augu = 1-1-2.

Vonandi taka fleiri þetta verðuga málefni fyrir um helgina!

Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna

Þar til næst ♡
-Sandra Birna

Þér gæti einnig líkað við