„Kallar hún þau ömmu og afa?“

Foreldrar mínir skyldu fyrir nokkrum árum, sem er ekki frásögu færandi nema það að þau eiga samt maka í dag. Þegar ég var ólétt af Ágústu Erlu fékk ég nokkrum sinnum spurninguna: „ætlaru að láta hana kalla þau ömmu og afa?“ ss. „stjúp“ amman og afinn. Ég var nú ekki mikið að pæla í því á þeim tímapunkti, hafði margt annað að hugsa um. Þegar stelpan mín fæddist fannst mér þetta ömmu og afa tal pínu óþægilegt verð ég að viðurkenna. En ég held það hafi aðallega verið útaf fólki í kringum mig sem var að spyrja að því hvort að barnið ætti og myndi kalla þau ömmu og afa. Ég tjáði mig samt ekkert um það fyrst. Í fyrsta lagi af því að mér finnst þetta ekki vera eitthvað til að tala um, af hverju ætti ekki öðrum að vera sama? Í öðru lagi þá finnst mér sjálfsagt að hún kalli þau ömmu og afa. Þegar hún kemur í heiminn þá á hún þrjú pör af ömmum og öfum sem eru búin að bíða spennt eftir henni og taka henni með opnum örmum. Það eina sem að skilur þau að eru blóðtengslin, sem að við vitum að skipta engu máli þegar kemur að ástinni, sama hvort það sé ást á milli barns og foreldris eða barns og afa og ömmu.

Ég veit líka að það er ekki sjálfsagt að „stjúp“ fólk taki vel í „annarra manna“ börn og barnabörn. Maður hefur alveg heyrt ömurlegar sögur að þeim samböndum þar sem að hatur og einelti er til staðar. Ég ætla nú ekki að fara útí það hér en þegar maður heyrir þannig sorgarsögur þá getur maður ekki annað en hugsað hvað maður er heppinn. Að barnið manns eigi þrjú pör af öfum og ömmum sem elska hana endalaust.

Þegar hún er orðin nógu stór til að skilja þá mun ég alveg útskýra fyrir henni af hverju hún eigi þrjár ömmur og þrjá afa en ekki tvö af hverju. En í dag er það algjört aukaatriði.
Í augum stelpunnar minnar eru ömmur hennar og afar bara manneskjur sem passa uppá hana, elska hana og jú auðvitað dekra hana. Blóðtengsl skipta ekki máli.

xo
Guðrún Birna

Getið fylgst nánar með mér á Instagram: gudrunbirnagisla <3

 

Þér gæti einnig líkað við