Skógræktin á Akranesi – Jólaland

Ég og Svenni fórum í göngutúr eitt kvöldið um daginn, og þar sem það var soldið mikið rok úti, þá ákváðum við að taka gönguna í skógræktinni, því þar er ávallt skjól frá rokinu. Skógræktin á Akranesi, eða Garðalundur, eins og hún heitir, er frábært útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna. Þar er mikið af skemmtilegum leiktækjum, útigrill í skjóli, lítil tjörn þar sem hægt er að gefa öndunum á sumrin og frisbígolf völlur svo eitthvað sé nefnt. Stóri hringurinn í skógræktinni er 800 m langur og er mjög vinsælt að fara þangað og hlaupa nokkra hringi, sérstaklega þegar mikið rok er úti. Einnig er minni hringur sem er hægt að fara, sem er þá um 500 m langur. Búið er að koma fyrir hreyfistöðvum á nokkrum stöðum, með myndum og hugmyndum af æfingum, svo hægt sé að ganga/skokka hringinn og gera æfingar í leiðinni, sem er mjög sniðugt fyrir eldra fólk, til dæmis. 

En í þessari færslu ætlaði ég að segja ykkur frá Jólalandi sem er búið að setja upp í Garðalundi núna fyrir jólin.

Sjá upplýsingar á mynd: 

Sem sagt, það er hægt að ganga eftir ákveðinni gönguleið og á leiðinni eru svona skilti þar sem maður skannar inn QR kóðann og fær þá ýmist sögu eða söng til að hlusta á. Skiltin eru númeruð, þannig að maður þarf að fara réttu leiðina til að fá sögurnar í réttri röð. Það er búið að skreyta mjög fallega alla skógræktina, svo sjón er sögu ríkari. Þetta er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna í jólamánuðinum. Ég mæli með að fara þegar er byrjað að dimma, til þess að öll ljósin njóti sín betur. En ég myndi hafa meðferðis vasaljós, þar sem það vantar smá upp á lýsingu á nokkrum stöðum á leiðinni. 

Set hér nokkrar myndir sem ég tók: 

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við