Jólahefðirnar mínar

Nú þegar styttist í jólin langar mig að fara aðeins yfir þær jólahefðir sem ég held fast í. Hefðirnar geta verið margar og misjafnar eftir fjölskyldum og mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að heyra í hvaða hefðir fólk heldur. 

Eitt af því fyrsta sem ég geri fyrir jólin er að þrífa húsið hátt og lágt. Alla skápa, skúffur, veggi og loft. Mörgum finnst þetta asnalegt og orðið gamaldags en mér finnst þetta mjög mikilvægt. Ég gef mér þá tíma til að fara í gegnum allt heimilið, losa mig við það sem við notum ekki lengur og henda því sem er orðið ónýtt. Það er alveg ótrúlegt magn af rusli sem við hendum á hverju ári í þessum þrifum. Mér finnst best að byrja á þessum þrifum tímanlega og reyna að vera búin með þau í byrjun desember. Það tekst auðvitað ekki alltaf en mér finnst það ágætis markmið.

Við hittumst nokkur úr stórfjölskyldunni og steikjum saman laufabrauð. Það er mjög skemmtilegt að hittast og eiga notalega stund saman fyrir jólin. 

Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að kíkja í jólahúsið sem er staðsett í Eyjafirði, rétt fyrir innan Akureyri. Við reynum að fara þangað á hverju ári fyrir jólin. Þetta hef ég gert frá því ég var lítil en þá fórum við fjölskyldan alltaf í jólaferð á Akureyri til að klára að kaupa gjafirnar og fara í jólahúsið. Mér finnst jólaskapið hellast yfir mig þegar ég fer þangað. Ég skrifaði færslu um Jólahúsið sem má lesa hér.

Í kringum fyrsta í aðventu geri ég yfirleitt aðventukrans. Síðustu ár hefur hann verið mjög einfaldur og fljótlegur. Við setjum líka smá jólaskraut upp hjá okkur. Skraut sem okkur finnst mjög fallegt og þykir einstaklega vænt um. T.d. fá jólasveina stytturnar okkar að fara upp á þessum tíma. Ég safnaði þeim hægt og rólega í jólaferðunum með mömmu og pabba þegar ég var yngri. Ég keypti alltaf einn til tvo jólasveina fyrir hver jól. Við klárum svo að skreyta allt á Þorláksmessu, yfirleitt um kvöldið á meðan við hlustum á tónleikana hans Bubba í útvarpinu. Skreytum jólatréð og fleira. 

Frá því ég man eftir mér hefur mamma brúnað hvítkál fyrir jólin. Ég hef ekki séð þetta oft á boðstólnum í jólaboðum og svoleiðis en hjá minni fjölskyldu er þetta algjört möst. Atli sér um þetta á mínu heimili sem og að baka nokkrar sortir af smákökum fyrir jólin. 

Ég er ein af þeim sem finnst jólin ekki koma nema að fá smá skötu, vel kæsta. Ég borða ekki mikið af henni en smakka alltaf smá. Eftir að hafa eldað skötuna og fengið skötulyktina út um allt sjóðum við hangikjöt til að ná lyktinni í burtu.

Ég er orðin virkilega spennt fyrir jólunum í ár en þetta eru fyrstu jólin hans Tristan og verður gaman að skapa minningar með honum!

Þér gæti einnig líkað við