Jólagjafahack Sæunnar

Jólagjafir, jólagjafir, jólagjafir………. úff.

Hver hefur ekki verið í þeim sporum að vita ekki alveg hvað á að gefa vinum og vandamönnum í jólagjöf? Eða að hafa ekki tíma í að ráfa á milli búða korteri fyrir jól og reyna finna út úr því hvað 13 ára bróðurdóttir mannsins þíns vill í jólagjöf?

Þetta svosem leiðir okkur inná aðra áhugaverða spurningu sem ég hef verið að velta fyrir mér. Hvenær á að hætta að gefa börnum systkina, frænkum og frændum jólagjafir?
Það er orðin ansi mikil samkeppni um aurinn sem í buddunni er á aðventunni. Fyrir utan fatakaup, myndatökur með litla prinsinn, aðventutónleika, betri matarkaup og allt það, þá eru það jólagjafirnar. Og til að bæta ofan á þetta allt saman þá er desember mánuður frekar dýr mánuður hjá kaupmönnum þessa lands.

Þetta leiðir svo allt til þess að þó svo að í góðri bók segi, að sælla er að gefa en þiggja, og maður vill nú gefa smekklegar gjafir, ætli maður að gefa á annað borð, þá heggur það bara verulega í fjárhaginn. Nú eru kortafyrirtækin farin að bjóða okkur að borga þetta alveg fram í febrúar!

Árið 2012 kynntist ég manninum mínum honum Sigtryggi. Fram að því hafði mér fundist jólin og aðdragandi þeirra þægilegur tími. Jólagjafalistinn minn var alls ekki svo langur – foreldrar, systur, nokkrar vinkonur, ömmur og afar. En – eins og gerist þegar tveir einstaklingar rugla saman reitum sínum þá varð jólagjafalisti okkar eitt. Það eru engar ýkjur að þegar ofan á litla þægilega listann minn bætast í kringum 20 jólagjafir svo heildar gjafalistinn var í kringum 30+ gjafir fyrir hver jól fyrir fólk á öllum aldri og einstaklinga jafn ólík eins og við erum mörg, þá er þetta farið að taka verulegan tíma og kosta sitt.

Fyrstu árin okkar saman þá byrjuðum við á því að þræða á milli búða í stressinu, kaupa bara einhverja hluti til þess að klára dæmið af á yfirsprengdu verði sem var svo komið á útsölu nokkrum dögum síðar í janúar.

Eftir nokkur ár með þessu uppleggi þá nennti ég þessu ekki lengur! Þetta var orðið streituvaldandi.Það fór óhemju mikill tími í að ráfa á milli búða í leit af einhverju sem gæti hentað. Mér fannst þetta oft illa hugsað hjá okkur, náði ekki að bera saman verð og gjafirnar fannst mér oft verða ópersónulegar.

EN – nú er ég dottin niður á lausn sem hentar okkur ágætlega. Jólagjafainnkaupin eru meira að segja að verða frekar auðveld og þægileg! Ég sit bara hér heima, upp í sófa með tölvuna og gef mér tíma í að finna skemmtilegar og sniðugar gjafir fyrir okkar nánustu. Ekki svo að skilja að ég geri ekki neitt annað. Nei, nei. Ég set mér fyrir. Í dag skoða gjafir fyrir ákveðna aldurshópa og afgreiði systur mínar. Á morgun tek ég ömmurnar fyrir og klára þær.

Og þá er komið að sparnaðartrixunum. Nota skal: „Singles Day“ – „Black Friday“ og „Cyber Monday“! Þessar síður eru orðnar mínir bestu vinir, ásamt asos.com, boohoo.com, heimkaup.is og elko.is.

Nú í ár erum við skötuhjúin búin að afgreiða allar jólagjafirnar og það er ekki enn kominn desember! Með þessu náum við að nýta okkur góða afslætti og kaupa vel ígrundaðar og persónulegar gjafir af því ég gaf mér tíma! Bara hér heima og hafði það kósý upp í sófa. Það tók yfirleitt ekki langan tíma að bíða eftir því sem pantað var. Allt í einu voru gjafirnar komnar hér heim að dyrum, ekki amalegt.

Ég á mér uppáhalds dálk á asos.com sem heitir Living + Gifts.
Þar er hægt að sía (sort‘a eða filter‘a) hvort þetta sé handa henni eða honum. Það er líka hægt að setja inn verð, snyrtivörur, aldur, mælt, uppáhalds, það sem er trenda og margar fleiri breytur til að auðvelda leitina. Sama með boohoo.com og heimkaup.is.

Það sló mig bara þegar ég áttaði mig á að jólagjafir þær sem við ætlum að gefa fyrir þessi jól voru allar komnar í hús sl. föstudag, að nú ættum við bara að geta átt góðan gæða tíma á aðventunni.

Ég viðurkenni alveg að það tók mig smá tíma kynna mér ólík sölukerfi sem þessar síður nota en ég til trúa því að honum hafi verið vel varið. Það þarf líka að átta sig á hvernig þær vinna, t.d. kemur afsláttur á „singles day“ svo aðeins meiri afsláttur á „black Friday“ en mesti afsláturinn kemur hjá vefverslunum á „cyber Monday“ svona til að draga okkur neysluseggina að skjánum til að versla á mánudögum.

Þannig að- mín reynsla er þessi . Það er þægilegt að nota vefverslanir. Hægt er að gefa sér tíma, þær eru opnar 24 tíma í sólarhring, skoðað úrvalið, bera saman verð og fá gjafirnir sendar heim af dyrum. Og síðast en ekki síst, á þekktum afsláttar dögum getur það verið verulega hagkvæmt.
Eins og Hemmi Gunn sagði alltaf ,,Verum Hress og ekkert stress”.

Gleðilega aðventu og bestu kveðjur,
Sæunn Tamar

Þér gæti einnig líkað við