Jól í Malasíu

Nú þegar styttist í jólin finnst mér gott að líta aðeins til baka og rifja upp jólin í Malasíu þegar ég var þar sem skiptinemi árið 2012. Það eru mjög dýrmætar minningar sem mig langar að deila með ykkur. Eins og gefur að skilja eru myndirnar sem ég deili í þessari færslu gamlar og ekki teknar með eins góðri myndavél og hægt er að fá í dag.

Ég bjó hjá indverskri fjölskyldu sem eru hindúatrúar svo þau halda ekki uppá jólin. Þessi tími er bara eins og hver annar dagur hjá þeim en þau voru mjög forvitin að vita hvernig við höldum uppá jólin. Ég útskýrði vel fyrir þeim hvernig þetta er hjá okkur, að við gefum hvort öðru gjafir sem við opnum á aðfangadagskvöld, að við eigum notalega stund saman og borðum góðan mat. Ég sagði þeim líka að fyrir jólin þá baki margir smáköku sem eru borðaðar yfir hátíðirnar og boðið uppá í jólaboðum. 

Þau tóku ekki annað í mál en að við myndum halda uppá jólin saman því þeim fannst ekki hægt að ég fengi engin jól. Ég hafði haldið uppá Deepavali eða ljósahátíðina með þeim og þau ætluðu þá að halda uppá jólin með mér.

Þegar aðfangadagur rann upp átti ég ennþá eftir að kaupa einhverjar jólagjafir og pakka þeim inn. En fjölskyldan var ákveðin í því að við skyldum gefa gjafir, en þetta var aðeins öðruvísi en hérna heima. Ég gaf hverjum og einum í fjölskyldunni gjöf og þau gáfu mér öll gjöf en þau voru ekkert að gefa sín á milli eins og við gerum hérna þannig ég var sú eina sem fékk fullt af gjöfum.

Yfirleitt ef það eru einhverjir svona sérstakir dagar þá fara þau í hof svo þeim fannst ég verða að fara í kirkju á jólunum, annað væri bara fáránlegt. Ég er ekki vön að fara í kirkju á jólunum en ákvað að prufa það þarna úti. Messan var klukkan 8 um kvöldið og var í tæpa 2 tíma. Ég fékk að fylgja einum fjölskylduvini í messu á meðan fjölskyldan var heima að undirbúa. En hvað þau voru að undirbúa vissi ég ekki. Það ríkti frekar mikil leynd yfir öllu og áttu jólin að koma mér á óvart, sem þau gerðu heldur betur!

Þegar ég kom heim úr messunni var búið að skreyta eitt pottablómið með seríu og skrauti og raða pökkunum undir það og setja upp nokkrar seríur. Fjölskyldan hafði boðið fleiri ættingjum og vinum að vera með okkur og voru flestir mættir þegar ég kom aftur heim. Einn vinurinn hafði klætt sig í jólasveinabúning og búið til skegg úr bómullarhnoðrum svo það er ekki hægt að segja annað en að metnaðurinn hafi verið ansi mikill! Um miðnætti sprengdum við nokkra flugelda áður en við borðuðum kvöldmatinn en í matinn voru kjúklinganaggar og núðlur. Viðurkenni að þetta var ekkert besti maturinn sem ég hafði borðað þarna úti en það skipti ekki máli. Hugsunin á bak við þetta allt var það sem skipti máli! Milli 1 og 2 opnuðum við svo gjafirnar og ég man að mér fannst mjög skrítið að vera að því svona seint. En þar sem tímamismunurinn á milli Íslands og Malasíu eru 8 tímar þá vorum við að þessu öllu á svipuðum tíma og fólkið heima. 

Þessi jól eru mér mjög minnisstæð og dýrmæt því fjölskyldan sem ég var hjá vildi gera allt til þess að mér liði sem best og svo ég fengi minni heimþrá á þessum tíma. Ég var og er ennþá svo þakklát fyrir það sem þau gerðu fyrir mig <3

Þér gæti einnig líkað við