Jól án samviskubits

Desember er klárlega mánuður freistinganna. Það er mikið um jólaboð, smákökur, konfekt og fleira sem er í boði allan mánuðinn og flestum reynist það mjög erfitt að standast allar þessar freistingar. Nú er ég mikið jólabarn sjálf, ég elska Nóakonfekt, lakkrísbitakökur og hamborgarhrygg og ég leyfi mér alveg þessa hluti í desember. Enda ef þú hugsar út í það þá eru 12 mánuðir á ári, desember er bara einn mánuður, 31 dagur af 365 dögum. Það þýðir að desember mánuður ekki nema 8,5% af öllu árinu! Og þó að desember mánuður sé 31 dagar, þá held ég að flestir séu alveg meðvitaðir um að það sé ekki sniðugt að borða konfekt og smákökur á hverjum einasta degi í 31 dag, svo við getum jafnvel minnkað þetta niður í 10 daga, sem er þá innan við 3% af öllu árinu! Ég held að við getum öll verið sammála um að þessi 3% skipti ekki máli þegar við lítum á heildarmyndina. Það er hvað við gerum hin 97% af árinu sem skipta miklu meira máli. Leyfum okkur að njóta jólanna og jólaboðanna án samviskubits með fólkinu okkar, það eru nú bara jól einu sinni á ári!

Annað sem mér finnst mjög mikilvægt að fólk gleymi ekki um hátíðarnar er hreyfing. Þó að það sé mikið að gera í kringum jólin, þá ætti hreyfingin alls ekki að detta úr dagskránni hjá manni, því það er ekkert sem virkar betur á stress og kvíða en hreyfing! Ef þú finnur alls ekki tíma til að hreyfa þig yfir daginn þá er hægt að vakna bara 30 mín fyrr um morguninn til að taka æfingu heima hjá sér, fara í göngutúr eða taka smá teygjur og léttar æfingar fyrir svefninn. Ég ætla að birta færslu í vikunni með hugmyndum að æfingum sem hægt er að gera heima hjá sér yfir hátíðarnar.

Takk fyrir að lesa


Þér gæti einnig líkað við