Baltasar var ekki orðinn 7 mánaða gamall þegar ég fæ jákvætt á þungunarprófi, það fyrsta sem ég hugsaði og sagði upphátt var “FOKK”.
Ég tók 3 önnur próf yfir 2ja vikna tímabil til að vera alveg 110% viss, jú það vill kannski vera að ég er pínu treg, en allavega þá var komið alveg blússandi jákvætt og mér leið ekki vel með það, reyndar þá leið mér pínu illa með það og var alls ekki tilbúin í þennan pakka aftur.
Ég talaði endalaust um “ef ég er ólétt” og fann mig bara alls ekki tengjast barninu, pældi ekkert í því að taka einhverja auka fólinsýru eins og manni er ráðlagt að gera og var ekkert að spá hvort ég væri að borða eitthvað hrátt, harðfisk eða hvað sem er.
Ég gleymdi bara að ég væri ólétt. Einu skiptin sem ég mundi það var ef ég tók vítamínin mín á tóman maga, því þá varð mér flökurt.
Hugsaði oft hvað allt væri auðveldara ef ég væri ekki ólétt, og hugsaði mjög ljótar hugsanir hvað varðar þetta litla varnarlausa kríli.
Ég loksins mundi eftir að panta tíma í snemmsónar og fékk tíma á mánudegi.
Það var miðvikudagur fyrir snemmsónar og það byrjaði að blæða, á fimmtudeginum hélt svo áfram að blæða, það leið á daginn og ég var farin að hafa áhyggjur og ég fæ tíma samdægurs hjá kvensjúkdómalækni til að athuga stöðuna.
Allt leit vel út, hann sá enga blæðingu, og eins og hann sagði “so far, so good” og spurði ég tvisvar sinnum hvort það væri í alvöru hjartsláttur, og þvílíkir léttir sem þessi heimsókn var!
Fæ tvær myndir af þessari litlu klessu og byrja að ímynda mér litlu fjölskylduna mína stækka og hvort það kæmi kannski stelpa í þetta skipti, væri gaman að hafa eitt af hvoru kyni.

„Þá er fóstrið bara að fara, þú verður bara að slaka á og taka verkjatöflur!“
Þennan dag, eftir þessa heimsókn, fann ég strax hvað ég tengdist þessum bumbubúa (það sem einn lítill sónar getur gert!).
Blæðingin hélt samt áfram daginn eftir og seinnipartinn voru komnir verkir með og ég hringi niður á spítala (ljósan mín sagði mér að gera það ef verkir kæmu með blæðingu).
Ég hringi í móttökuna og var send á 6 mismunandi staði í símanum áður en ég fæ að tala við réttu hjúkkuna sem var með ekkert nema leiðindi og attitude “Þá er fóstrið bara að fara, þú verður bara að slaka á og taka verkjatöflur”.
Ég fer aðeins fyrr heim úr vinnu, hringi í Daníel og græt á leiðinni, stuttu síðar hringir hann aftur í mig, en hafði hann hringt niður eftir og látið í sér heyra og fékk tíma klukkan 6.
Ég kem heim og fer á salernið, og fer þessi blóðugi slím köggull í klósettið á stærð við golfkúlu og vissi ég að þarna var fóstrið.
Ég ligg í baðkarinu í mínu blóði og bíð eftir að fara á landsspítalann.
Þegar þangað er komið, tekur við rúmlega klukkutíma bið, en þegar komið er að sónarnum fáum við þar staðfest að ekkert fóstur er til staðar.
Ég var svo sem búin að undirbúa mig undir það.
Eftirá hyggja hugsa ég endalaust um það hvað þetta er mér að kenna, ég hugsaði svo illa um fóstrið, ég vildi það ekki til að byrja með, ég vildi ekki vera ófrísk í brúðkaupinu. “Pottþétt því ég tók ekki inn fólinsýru strax”.
Hausinn heldur ennþá áfram með þessar hugsanir.
Ég veit að það er ekkert sem ég hefði getað gert öðruvísi.
Greinilegt að eitthvað var ekki að þroskast eins og það átti að gera, gott að fóstrið fór svona. Mun skárra en margir aðrir valkostir úr því það þurfti að fara.

En ég er óendanlega þakklát fyrir þennan yndislega fullkomna dreng sem ég á.
Langar að loka þessum skrifum með því að vekja ykkur til umhugsunar að við skulum ekki taka því sem sjálfsögðum hlut að verða ófrískur, hvað þá að eiga heilbrigð börn.
Líf er alltaf líf og það er alltaf sorglegt þegar þau fara.
Fyrir ekki svo löngu söng ég “the story” eftir Brandi Carlile og tók upp hér heima með upptöku græjunum sem Danni gaf mér og var að hlusta á það aftur í dag og allt í einu hefur lagið frá allt öðru að segja, og loksins þorði ég að setjast fyrir framan tölvuna og deila þessu með öðrum.
Skil linkinn af laginu eftir hér.
Knús.
Aníta Rún