Ítalía – ferðasaga

Við dóttir mín fórum í þriggja vikna roadtrip um Ítalíu núna í júní. Við vorum búnar að gera ferðaáætlun fyrir ferðina og gekk hún alveg upp og allt ferðalagið heppnaðist ótrúlega vel. Mig langar til að segja ykkur aðeins frá þeim stöðum sem við heimsóttum og hvað stóð svona mest uppúr.

Verona
Verona var einn af mínum uppáhalds áfangastöðum í ferðinni. Borgin er ótrúlega falleg og snyrtileg og allir svo vingjarnlegir. Ef ég þyrfti að velja einn stað af þeim sem við heimsóttum í ferðinni til að flytja til, þá yrði Verona fyrir valinu. Ég get ekki alveg útskýrt hvað það var við Verona, mér leið bara alveg ótrúlega vel þar. Það var ekki alveg jafn troðið af túristum þar eins og t.d. í Róm (segir túristinn sjálfur) og maður þurfti ekki að labba langt út fyrir miðbæinn til að vera kominn í rólegheit. Ég labbaði á hverjum degi í sirka 10 mín að geðveikt flottum garði þar sem ég gerði æfingar með geitur hingum megin við girðinguna.

 

Feneyjar
Að koma til Feneyja er draumi líkast. Það er ótrúlegt hvað þeir ná að halda öllu hreinu þar miðað við fjölda ferðamanna sem fer þar í gegn. Við löbbuðum rúmlega 20 þús skref á dag þegar við vorum í Feneyjum enda svo ótrúlega margt fallegt að sjá og okkur langaði ekki að missa af neinu, svo við löbbuðum nánast allan hringinn oftar en einu sinni. Við létum okkur hafa það að splæsa í Gondóla siglingu, en það kostar 80 evrur á daginn (100 á kvöldin) fyrir hálftíma. En við hefðum alls ekki viljað sleppa því, það var mjög skemmtileg og öðruvísi upplifun.

Rimini
Rimini er bara svona típískur ferðamanna strandbær þar sem er svo sem ekkert merkilegt að skoða. Við fórum nú samt í bæinn og skoðuðum það sem var talið upp að væri vert að sjá og eyddum líka góðum tíma á ströndinni og uppá þaki á hótelinu okkar í sólbaði. Eina ástæðan fyrir því að við ákváðum að stoppa í Rimini var til þess að fara þaðan yfir til San Marínó, en það eru klukkustundar rútuferðir þangað nokkrum sinnum á dag frá lestarstöðinni í Rimini.

San Marínó
San Marínó er lítið land inn í miðri Ítalíu. Að koma þangað er eins og að koma inní lítið ævintýraland. Það eru kastalaturnar uppá háum fjallstindum, svo maður þarf að vera tilbúinn til að ganga mikið uppá við. Þegar maður er að koma að landamærunum og sér fjöllin, vá, það er ein ótrúlegasta og óútskýranlega fallegasta sjón sem ég hef séð. Það er bara ekki hægt að útskýra og myndir ná ekki að fanga hversu stórkostlegt þetta er. Mér fannst San Marínó algjörlega vera ómissandi hluti af þessu ferðalagi, og hefði alls ekki viljað sleppa því.

Amalfi Coast
Við gistum í bænum Praiano á Amalfi coast. En Almalfi coast samastendur af nokkrum litlum bæjum og þegar við fórum að spyrjast fyrir var okkur bent á að það sem væri skemmtilegast/merkilegast að sjá væri Positano, Capri, Amalfi og Ravello. En þar sem við höfðum í raun bara 2 heila daga þarna þá ákváðum við að nota einn til að slaka á í Praiano og annan til að ferðast og fórum við þá til Positano og sigldum svo þaðan yfir til Capri. Praiano er frekar lítill bær og mjög rólegt þar. Hótelið okkar var uppi í klettunum og gat maður labbað alveg niður að sjó og útsýnið úr herberginu okkar var alveg magnað. Positano er aðeins stærri bær og oftast ef þú gúglar Amalfi coast þá færðu upp mynd af Positano. Enda um miðjan daginn þar var varla hægt að fóta fyrir túristum og það kostaði 25 evrur að leigja sér sólbekk. Við fórum því bara í næstu búð og keyptum risastórt „sjal“ og lögðum það á ströndina og létum það duga. En ég skil vel vinsældir Positano, þessi bær er ótrúlega fallegur. Capri var líka bær sem við sáum ekki eftir að heimsækja, en sú heimsókn var sú eina í ferðinni sem ekki var fyrirfram skipulögð. Við keyptum okkur siglingu þar inní helli sem heitir „Blue Grotto“ og er vatnið inní hellinum alveg blátt og speglast upp þannig að allt inní hellinum verður skærblátt. Við vorum í pínulitlum árabát með manni sem söng fyrir okkur inní hellinum, enda mjög gott sound þar inni. Algjört möst að fara í þessa siglingu myndi ég segja.

Róm
Það var svo heitt á meðan við vorum í Róm. Einn daginn fór hitinn uppí 37 gráður. Það er mjög erfitt að túristast labbandi út um allt í svona hita, enda var maður á tímapunkti örugglega ekki langt frá því að fá sólsting. Róm er ótrúlega falleg borg og svo endalaust margt hægt að skoða og gera. Við náðum ekki alveg að klára listann okkar yfir allt sem við ætluðum að gera þar, en tókum svona það allra helsta. Hitinn spilaði klárlega líka inní, maður er kannski ekki alveg jafn athafnasamur og æstur í að labba út um allt þegar maður er að bráðna. Við versluðum miða fyrirfram í Vatican City og í Colloseum til að sleppa við að standa í röðum og mæli ég alveg hiklaust með því.

Flórens
Ég myndi segja að Flórens sé kannski sú borg sem ég bjóst við meira af. Ég var búin að lesa svo mikið um hvað Flórens væri æðisleg og fólk búið að lofsama hana þvílíkt, en mér fannst hún ekki jafn spennandi og Verona td, eða Feneyjar, eða Róm, eða Amalfi. Kannski ef ég hefði farið fyrst til Flórens hefði mér fundist hún æðislegri, ég veit það ekki. En jú, Flórens var æði, en samt bjóst ég við meiru. Mér fannst einhvern veginn ekkert rosalega mikið að gera þar. Við náðum að klára eiginlega allt fyrsta daginn. En svo fundum við frábæra „strönd“ við ánna sem bjargaði okkur alveg og lágum við þar og „tönuðum“ með Lemon slushie og vatnsmelónu með innfæddum. Ótrúlegt en satt þá voru engir túristar þar, fyrir utan okkur. Þessi „strönd“ fannst mér hápunkturinn á Flórens heimsókninni.

Pisa
Pisa kom mér á óvart! Ótrúlega falleg, hrein, snyrtileg og skemmtileg borg. Skakki turninn og kapellann var að sjálfsögðu aðal málið en það voru líka skemmtilegar göngugötur þar og fallegar kirkjur út um allt. Það var ein göngugata með verslunum og önnur með mörkuðum og þess háttar. Ég myndi setja Pisa númer tvö á listann af þeim borgum sem við heimsóttum sem ég gæti hugsað mér að búa í.

Cinque Terre
Cinque terre var uppáhaldið mitt í allri ferðinni. Cinque terre samanstendur af fimm litlum bæjum sem eru byggðir í klettunum upp við sjóinn (svipað og Amalfi, nema Amalfi bæirnir eru hærra uppi og því aðeins erfiðara að ferðast á milli þeirra). Við gistum í bæ sem heitir Vernazza og þar búa t.d. ekki nema um 800 manns og þar er bara ein svona aðalgata og engin bílaumferð. Lestar ganga mjög reglulega á milli allra bæjanna svo við náðum að heimsækja þá alla. Hver og einn bær hefur sinn sjarma og voru þeir allir þess virði að skoða. Við tókum gönguleiðina uppí fjalli frá Vernazza til bæjarins Corniglia og það var alveg magnað. Það tók 1,5 klst að ganga á milli og á miðri leið er sjoppa þar sem hægt er að kaupa Lemon slushie úr alvöru sítrónum og njóta hans yfir geðveiku útsýni. Við eyddum svo heilum degi í bænum Monterosso en þar er risastór strönd og þar sáum við í fyrsta skipti Íslendinga í allri ferðinni. Ég gæti alveg hugsað mér að fara í lengri ferð til Cinque terrre og skoða mig meira um þar.

Mílanó
Ég var búin að heyra það áður að það væri lítið hægt að gera í Mílanó annað en að versla og skoða dómkirkjuna og því er ég alveg sammála. Dómkirkjan er samt mjög falleg og keyptum við miða til að fara inn í hana og uppá þak, sem var mjög skemmtilegt að sjá. Síðasta daginn okkar í Mílanó (og í ferðinni sjálfri) vorum við svo heppnar að fá grenjandi rigningu og þrumur, sem setti smá svip á daginn. En við eyddum honum bara í að versla og skoða í búðum og þess háttar, sem okkur mægðum finnst nú ekki leiðinlegt.

Ég ætla að láta þetta duga af ferðasögu í bili að minnsta kosti. Aldrei að vita nema ég muni skrifa eitthvað meira um Ítalíu seinna meir.

Allt ferðalagið getið þið svo fundið í highlights á instagramminu mínu.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við