Ísafjörður

Ég var svo heppin að fá að fara til Ísafjarðar á vegum vinnunnar minnar í vikunni. Við fórum tvær saman og hvorug okkar hafði farið áður til Ísafjarðar, þannig að við vorum ákveðnar í að skoða aðeins bæinn og eitthvað í kring líka. Við fórum á morgni mánudagsins með flugi og vorum lentar fyrir kl níu og fórum svo heim daginn eftir með seinniparts flugi og vorum lentar í Reykjavík um kvöldmatarleytið. Við gistum eina nótt á Hótel Ísafirði og fékk ég herbergi með sjávarútsýni sem var geggjað! Ég mæli alveg klárlega með þessu hóteli fyrir þá sem ætla að gista á Ísafirði. Það var mjög snyrtilegt þarna. Rúmið og sturtan var æði, mikið pláss og morgunmaturinn var mjög fínn. Staðsetningin er líka alveg meiriháttar, það er ekki hægt að vera meira miðsvæðis.

Ég bað fylgjendur mína á instagram um aðstoð varðandi hvað væri möst að gera, sjá og borða á Ísafirði og ég fékk heldur betur nóg af ráðum og hugmyndum. Svo ég henti í to-do lista áður en við fórum og náði að merkja við allt á listanum og gott betur en það. Ráðið sem ég fékk hvað mest var að borða á veitingastaðnum Húsinu. Svo við gerðum það og er óhætt að segja að við urðum fyrir miklum vonbrigðum miðað við hvað búið var að hæpa þennan stað upp. Það voru ekki nema um 10 réttir á matseðlinum og enginn af þeim heillaði neitt sérstaklega, svo við enduðum báðar á að fá okkur beikonborgara. Sem var alveg mjög góður og allt það, en ekkert betri en ég hef smakkað áður. Annars voru líka margir sem mæltu með Tjöruhúsinu, en þar sem ég borða ekki sjávarrétti þá fórum við ekki þangað.

Um kvöldið að loknum vinnudeginum keyrðum við aðeins um bæinn og upp að skíðasvæði til að skoða útsýnið yfir bæinn og og það var mjög gaman að sjá það. Við vorum svo ótrúlega heppnar með veður allan tímann, það var um 11-14 stiga hiti og logn, sem við nýttum vel. Eftir kvöldmatinn tókum við rúnt á nokkra nærliggjandi bæi sem okkur langaði að sjá. Við fórum til Bolungarvíkur, Súðavíkur, Suðureyrar og Flateyrar. Mér fannst alveg magnað að sjá þessa litlu bæi, snjóflóðavarnirnar og minnisvarðana um snjóflóðin 1995 þar sem margir létu lífið. Við stoppuðum stutt í hverjum bæ, bara rétt til að taka myndir og teygja aðeins úr okkur. Þegar maður skoðar þessa bæi alla svona í einu þá rennur þetta soldið saman í eitt og satt best að segja á ég erfitt með að greina út frá myndunum sem ég tók, hvaða mynd er frá hvaða bæ. En þeir áttu það allir sameiginlegt að vera mjög fallegir og friðsælir (og litlir).

Í hádeginu á fysta deginum fórum við í sjoppuna Hamraborg og fengum okkur pizzu. Hún var ótrúlega góð og myndi ég alveg mæla með henni. Á seinni deginum fór ég í hádegismat á Thai tawee og fékk mér kjúkling í hnetusósu og núðlur. Það var klárlega besti maturinn sem ég borðaði í þessari ferð! Ef ég fer aftur til Ísafjarðar þá verður þessi staður fyrir valinu aftur, engin spurning! Eftir matinn röltum við um bæinn og skoðuðum í búðir og náði ég meira að segja að versla mér smá. Ég keypti mér 2 pils og sólgleraugu í verslun sem ber það skemmtilega nafn Jón og Gunna.

Ég vona að ég fái aftur tækifæri til að fara til Ísafjarðar því mér fannst bærinn mjög heillandi og fallegur. Get alveg hugsað mér að vera þar í nokkra daga og njóta. Þó það væri ekki nema í dagsferð, rétt til að borða á Thai tawee aftur og kíkja í Crossfit Ísafjörður sem ég náði ekki að gera í þessari ferð, en er klárlega á listanum mínum fyrir næstu ferð.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við