Inni plöntur

Ég er langt frá því að vera einhver sérfræðingur í plöntum né með einhverja svaka græna fingur. En ég ákvað samt að skrifa niður nokkra punkta sem allir ættu að geta auðveldlega fylgt eftir þegar kemur að því að hugsa um inniplöntur. 

Amma mín heitin var mjög mikil plöntukona og öll íbúðin hennar var þakin plöntum. Hún var aðalega með kaktusa, nóvember kaktus, páskakaktus o.s.frv. Og þeir blómstruðu svo fallega hjá henni, en hún var í sífellu að dásama plöntunum sínum og plönturnar byrjuðu að blómstra fyrir hana í staðin. Hún var alltaf að gefa mér eina og eina plöntu og hafa þær plöntur liðið ágætlega vel hjá mér. Kosturinn við kaktusana er að það er mjög erfitt að drepa þá, þú getur gleymt að vökva í marga mánuði en kaktusinn lifir enn þrátt fyrir það. 

Plöntur þjóna ýmsum tilgangi fyrir utan það að skreyta heimilið. Það er ótrúlega gaman að sjá hversu vinsælt það er orðið að hafa lifandi plöntur heima hjá sér, af því þetta er ekki bara fallegt stofudjásn. 

  • Hreinsa loftið
    • Aloe Vera
    • Friðarlilja
    • Veðhlaupari
    • Indíánafjöður
    • Pálmi
  • Minnka stress
  • Hjálpa til með svefn
    • Lavender
    • Aloe Vera
  • Vinna á pestum
    • Eucalyptus

Auðvitað er alltaf best að lesa sig til um nýja plöntu til að vera viss um hvað hver og ein planta þarf. Í flestum blómabúðum er miði á plöntunum sem segir til um hversu mikla/litla sól þarf og hversu mikla/litla vökvun þarf. Það þarf alls ekki að hafa græna fingur til að geta haldið lífi í plöntum svo ég skrifaði niður nokkra punkta sem er ágætis grunnur á því hvernig skal hugsa um inni plöntur.

Hvernig á að hugsa um inni plöntur?

Vökvun
Algengustu mistök sem fólk gerir er að vökva of mikið!
Hafðu plönturnar alltaf í undirskál eða plastpott með götum í botninum, plantan skilar af sér vatni sem það notar ekki. Ef þú vökvar of mikið þá er hægt að tæma undirskálina svo moldin myglar ekki. 
Ég er með ótrúlega margar tegundir af plöntum heima og ég man ekki hversu oft eða mikið ég þarf að vökva hverja og eina. Svo það sem ég geri er að stinga puttanum ofan í moldina til að meta hvort hún þarf vökvun eða ekki. Ef moldin er enn rök þá þarf ekki að vökva en ef hún er alveg þurr þá þarf hún vatn. Ég geri þetta með nýjar plöntur til að vita rúmlega hversu oft og mikið þarf að vökva. 
Vatnið sem notað er við vökvun má ekki vera of kalt, heldur fremur volgt. Mér finnst best að fylla garðkönnuna og geyma hana inn í skáp svo vatnið sé vel volgt þegar ég vökva næst. 
Síðan er ég alltaf með vatn í úðabrúsa og spreyja reglulega á plönturnar og dusta rykið af blöðunum svo plönturnar fái nóg súrefni í gegnum blöðin. 
Góð regla er að því þykkari sem blöðin eru, því mun minna vatn þarf.

Sól
Það sem mér finnst erfiðast er að finna út hvar í íbúðinni plöntunni líður best í. Sumar vilja mikla sól, sumar vilja nánast enga og allt þar á milli. Plöntur geta brennt sig á sólinni svo hafið það í huga, ef plönturnar eru í gluggakistum þá er gott að snúa þeim reglulega svo sólin beinist ekki beint á örfá blöð og skaði þau. 
Ef plantan er blómstrandi þá þarf hún meiri birtu en ekki beina sól, því er gott að hafa þær plöntur í austur- eða vesturglugga. Þykkblöðungar og kaktusar þurfa minni birtu og henta því í suðurglugga. Ef þú ert ekki viss hvernig planta þetta er og/eða hvað hún þarf þá er gott er að byrja á að setja plöntuna á stað í íbúðinni þar sem hún fær birtu en ekki beina sól, og svo færa hana til. 

Gæludýr
Sumar plöntur eru algjört eitur fyrir heimilisdýrin. Auðvitað er ekki ráðlagt að vera með slíkar plöntur á heimilinu þar sem dýr komast í þær. Ég var með einhverjar plöntur heima sem eiga að vera eitraðar þegar við fengum okkur kisu. Hún byrjaði að naga allar plönturnar sem hún komst í svo ég var dugleg að úða á köttinn smá ef hún ætlaði að fara í plönturnar. Eftir nokkur skipti þá var nóg að draga fram úðabrúsann og hún forðaði sér. Eftir það hef ég komið heim með nokkrar plöntur og kötturinn hefur alveg látið þær eiga sig, svona að mestu.

Færa plönturnar
Flestum plöntum er illa við það að það sé verið að færa þær mikið. Ég er rosalega dugleg að breyta til heima en reyni að gæta þess að vera ekki að færa plönturnar of mikið nema smátt og smátt í einu.

Inga

Þér gæti einnig líkað við